Afleiðing pólitískra hrossakaupa

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn

„Umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu er niðurstaða pólitískra hrossakaupa,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á fundi í Háskóla Íslands. Hann sagði að það ætti ekki að fara í þennan leiðangur nema á grundvelli breiðrar samstöðu meðal þjóðarinnar og slík samstaða hafi aldrei verið fyrir hendi.

Bjarni sagði að málið hefði ekki verið lagt upp með lýðræðislegum hætti. Ekki hefði verið kosið um þetta mál í síðustu kosningum. Einn stjórnmálaflokkur hefði beitt sér fyrir málinu, en VG væri á móti aðild. „Ég vil taka fram að ég tel að mál af þessu tagi eigi á endanum að leiða til lykta með lýðræðislegum hætti. Það var af þeirri ástæðu sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði það til á Alþingi að málið gengi til þjóðaratkvæðagreiðslu áður en þetta fyrsta skref yrði stigið. Í þinginu tók ég það mjög skýrt fram, og ég talaði til þeirra sem studdu tillöguna og þeirra sem mæla fyrir því að við Íslendingar gengjum í Evrópusambandið, og sagði að þeir væru ekki að gera málstað sínum neinn greiða með því að leggja af stað á þessum forsendum. “

Bjarni sagði að þegar málið var lagt fyrir þingið hefði ekki fylgt neinn rökstuðningur fyrir því að Ísland ætti að ganga í ESB. Ástæðan hefði verið sú að gerð hefðu verið hrossakaup milli stjórnarflokkanna sem fólu í sér að Samfylkingin fékk í gegn að sótt yrði um aðild að ESB og VG fékk í gegn að Varnarmálastofnun yrði lögð niður og ýmislegt annað.

Bjarni sagði að ekki hefði átt að leggja af stað í þennan leiðangur nema á grundvelli breiðrar samstöðu. Þessi samstaða hefði aldrei verið fyrir hendi og þess vegna væri þetta umsóknarferli komið út í ógöngur. Þess vegna væru menn ekki komnir lengra í þessari vegferð rúmlega tveimur árum eftir að umsókn var lögð fram.

„Það er engin pólitísk forysta fyrir málinu á Íslandi. Ég tel að við séum á rangri leið og ég vil hleypa þjóðinni að því að taka ákvörðun um það hvort þessu eigi að halda áfram, sem ég tel að við eigum ekki að gera,“ sagði Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert