Kosningar ekki heppilegar nú

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld að hún teldi ekki að þjóðin ætti að fara út í þingkosningar nú þótt fylgi við ríkisstjórnina mældist nú lítið.

„Leyfið okkur að kjósa," sagði kona að nafni Ásdís Ólafsdóttir, sem hringdi í Kastljós og vísaði til þess að stuðningur við ríkisstjórnina mældist nú aðeins um 25%.

„Við erum í miklum erfiðleikum núna. Ríkisstjórnin mælist ekki mjög hátt og það er auðvitað ekki hægt að ætlast til þess; við erum í það miklum hreingerningum eftir þetta hrun sem varð. En er stjórnarandstaðan einhver valkostur? Hún mælist með minna í skoðanakönnunum en við.

Ég segi: Ég held að þjóðin eigi ekki að fara út í kosningar núna í augnablikinu. Við erum að klára þessar hreingerningar, við erum að vinna okkur út úr vandanum," sagði Jóhanna.

Sigmar Guðmundsson, ritstjóri Kastljóss, spurði Jóhönnu hvort þetta vantraust, bæði á stjórn og stjórnarandstöðu, þýddi ekki að boða ætti til nýrra kosninga til að hleypa nýjum stjórnmálaöflum að fyrst þau sem fyrir væru næðu ekki til fólksins.

Jóhanna svaraði að mikil endurnýjun hefði orðið í þingkosningunum 2009 og 30 nýir þingmenn settust á Alþingi. Nú væru að fæðast ný stjórnmálaöfl vegna óánægjunnar í þjóðfélaginu og umhverfið væri mjög erfitt og þungt.

„En það sem mér finnst vanta er að þjóðin nái samstöðu og horfi bjartsýn á að við erum að ná okkur upp úr þessum erfiðleikum, sem við vorum í, á methraða, tveimur til þremur árum, sem erlendir hagfræðingar segja að sé algert met," sagði Jóhanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert