Óheiðarlegur og ósanngjarn rógburður

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segist aldrei hafa   lent í jafn óheiðarlegum og ósanngjörnum rógburði af hálfu nokkurs manns og Vigdísar Hauksdóttur, alþingismanns.

Gylfi segir á vef ASÍ, að Vigdís hafi þráfaldlega og ranglega haldið því á lofti að henni hafi verið sagt upp störfum þegar hún ákvað að leiða lista Framsóknarflokksins í Reykjarvíkurkjördæmi suður fyrir alþingiskosningarnar 2009, síðast í grein í Morgunblaðinu í dag.

Í greininni segir Vigdís, að allir viti um langvarandi tengsl ASÍ og Samfylkingarinnar. Þegar ég fór í framboð fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík var mér umsvifalaust sagt upp störfum sem lögfræðingur ASÍ eftir 5 mánaða störf hjá samtökunum. Ástæðan – jú hagsmunaárekstrar við stefnu ASÍ," skrifar Vigdís.

„Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki áður lent í jafn óheiðarlegum og ósanngjörnum rógburði af hálfu nokkurs manns," skrifar Gylfi á vef ASÍ. Ég tel mig ekki hafa gert neitt annað en að koma fram við Vigdísi Hauksdóttur af vinsemd og virðingu. Eins og ég hef áður vikið að, hafði ég frumkvæði að því að fá Vigdísi til starfa haustið 2008 og gekk ég svo langt að gefa ekki öðrum tækifæri á að kynna sig eða sín störf. Auðvitað vissi ég og forysta ASÍ af því að Vigdís var virk í starfi Framsóknarflokksins.

Nokkrum mánuðum eftir að Vigdís kom til starfa stóð henni til boða að sækja námskeið til lögmannsréttinda og fékk námsleyfi til að hún gæti öðlast þau. Það leyfi var launað þó hún hefði ekki áunnið sér rétt til þess. Það var í þessu launaða leyfi sem Vigdís vann að því að undirbúa sína pólitísku framtíð. Þegar hún hafði landað oddvitasætinu í öðru Reykjarvíkur kjördæmanna óskaði hún sjálf eftir því að fá að láta af störfum þegar í stað  og án þess að bera nokkrar skyldur gagnvart þeim samtökum sem höfðu nokkrum mánuðum áður ráðið hana í vinnu. Var það samþykkt og henni óskað velfarnaðar í því starfi, sem hún hafði valið sér.

Öðrum dylgjum og rógburði um störf mín og þau samtök sem ég er í forystu fyrir hirði ég ekki að svara. Málflutningur Vigdísar í þeim efnum er í fullu samræmi við þann ótrúverðuga stíl sem hún hefur valið sér í opinberum málflutningi og er ekki svara verður," segir Gylfi á vef ASÍ.

Vefur Alþýðusambands Íslands

Vigdís Hauksdóttir.
Vigdís Hauksdóttir. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert