Einskærir einræðistilburðir forseta Íslands

Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir var kjörin formaður Ungra vinstri grænna.
Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir var kjörin formaður Ungra vinstri grænna. mbl.is

Landsfundur Ungra vinstri grænna (UVG) lýsir sig dolfallinn á þeim „misskilningi á eðli lýðræðis“ sem birtist í ræðu forseta Íslands við setningu Alþingis í gær. „Skilningur forseta á niðurstöðum stjórnlagaráðs birtist fundinum sem alvarlegir einræðistilburðir, þar sem annar handhafi framkvæmdavalds nýtir sér óvissutíma í samfélagi og óskýr ákvæði í tillögu ráðsins til að vega að þingræðinu, sem hefur verið höfuðeinkenni íslenskrar stjórnskipunar frá stofnun lýðveldisins og sópa saman öllu framkvæmdavaldi í hendur forseta,“ segir í ályktun fundsins, sem fram fór á Suðureyri um helgina og lauk síðdegis í dag.

Þar segir ennfremur: „Þessi þróun í átt að aukinni miðstýringu ríkisvalds brýtur í bága við hugmyndir um aukið lýðræði sem er í hávegum haft hjá íslensku þjóðinni. Fundurinn veltir fyrir sér hvort forsetinn sé blindur á vilja þjóðarinnar eða hvort hann standist einfaldlega ekki mátið að auka eigin umsvif á óvissutímum.“

Margra grasa kennir í ályktun landsfundarins. Meðal annars er fyrirhugaður niðurskurður í heilbrigðiskerfinu gagnrýndur. Ung vinstri græn álíta að á meðan skattamöguleikar þjóðarinnar eru ekki fullnýttir sé ómögulegt að réttlæta frekari niðurskurð í velferðarkerfinu.

Grunnlaun presta úr takti við laun annarra

UVG leggja m.a. áhersla á aðskilnað þjóðkirkju og ríkisvalds og gagnrýna launakjör presta. Þeir séu ríkisstarfsmenn með grunnlaun uppá rúmar 470.000 krónur á mánuði, auk þess sem þeir fá greitt fyrir athafnir, s.s. jarðarfarir og giftingar. „Grunnlaun presta þjóðkirkjunnar eru algjörlega úr takti við laun annarra opinberra starfsmanna þegar litið er til nauðsynjar fyrir samfélagið. Sjúkraliðar, lögreglumenn og leikskólakennarar eru með grunnlaun sem ekki ná 250.000 krónum og er það ótækt að stétt sem þjónar aðeins broti þjóðarinnar sé með tvöfalt hærri laun en stéttir sem eru samfélaginu mun mikilvægari.“

Aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar ámælisvert

Landsfundur Ungra vinstri grænna ítrekar þá stefnu sína að Ísland skuli hafna hervæðingu, standa utan hernaðarbandalaga og tala fyrir friði á alþjóðavísu. „Það er ekki nóg að tala fyrir friði ef ekkert er að gert þegar á reynir. Aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar er ámælisvert ef litið er til atburða eins og loftárásanna í Líbýu og heræfinga Kanadamanna á íslenskri grundu.“

Í ályktun fundarins segir að áframhaldandi þátttaka íslenska ríkisins „í stríðsbrölti hernaðarbandalagsins NATO er gróflega úr takti við friðarstefnu ríkisstjórnarinnar og algjörlega fáránleg í ljósi þess að Íslendingar telja sig vera friðarsinna. Ung vinstri græn skora á þingflokk VG að vera samkvæm eigin stefnuskrá og krefjast úrsagnar úr NATO.“

Jafnframt harmar UVG að staða hælisleitenda sé enn ófullnægjandi þrátt fyrir að þessi málefni séu nú í höndum ráðherra úr röðum Vinstri grænna, og krefjast úrbóta.

Þá telur landsfundurinn að Palestína eigi að fá tafarlausa viðurkenningu á sjálfstæði sínu sem þjóð og ríki. Össuri Skarphéðinssyni er hrósað og hann hvattur til frekari dáða „því batnandi mönnum er best að lifa“.

Einnig má nefna að landsfundurinn ítrekaði þá afstöðu sína að Íslandi væri betur borgið utan Evrópusambandsins heldur en innan þess. „Ung vinstri græn telja þó að það sé skýlaus lýðræðisleg krafa að aðildarviðræður verði kláraðar og niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu hlýtt.“

Þóra Geirlaug nýr formaður

Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir var kjörin formaður Ungra vinstri grænna í dag. Fráfarandi formaður,  Snærós Sindradóttir, gaf ekki kost á sér áfram.

Aðrir í nýrri stjórn eru: Bjarni Þóroddsson varaformaður, Þórir Ingvarsson gjaldkeri, Una Hildardóttir ritari og meðstjórnendurnir Daníel Haukur Arnarson, Eva Hrund Hlynsdóttir, Helgi Hrafn Ólafsson, Sindri Geir Óskarsson og Tinna Ingólfsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert