Harma efnahagslegt ofbeldi stjórnvalda

Margir mótmæltu við þingsetninguna í gær.
Margir mótmæltu við þingsetninguna í gær. mbl.is/Júlíus

Hagsmunasamtök heimilanna harma það „efnahagslega ofbeldi stjórnvalda og fjármálastofnana gagnvart almenningi sem látið er viðgangast“ eins og segir í tilkynningu frá samtökunum.

Hagsmunasamtök heimilanna afhentu forsætisráðherra 33.525 undirskriftir á Austurvelli í gær, en söfnunin heldur samt sem áður áfram til áramóta og getur fólk enn sagt hug sinn í þessum efnum á www.heimilin.is.

„Samtökin lýsa yfir ánægju með stuðning og samstöðu um kröfur og þakka öllum þeim sem skrifað hafa undir undirskriftarsöfnun.
Samtökin hafa í margar vikur talað fyrir friðsömum samstöðufundi og harma því að þingmaður og myndatökumaður hafi orðið fyrir hnjaski í eggjakasti við þingsetningu í dag. Samtökin telja að slíkt ofbeldi sé til marks um þá örvæntingu sem ríkt hefur í samfélaginu allt of lengi. Ástand sem samtökin hafa ítrekað varað við að skapist þegar samfélagssáttmálinn hefur verið rofinn. Samtökin harma jafnframt að þingsetning hafi ekki getað farið fram án eggjakasts og ofbeldis árum saman, eins og formaður samtakanna sagði í útvarpsfréttum Ríkisútvarpsins í hádeginu. Ekki síður harma samtökin það efnahagslega ofbeldi stjórnvalda og fjármálastofnana gagnvart almenningi sem látið er viðgangast.


Jafnframt lýsa samtökin yfir miklum áhyggjum af fréttamati ríkisfréttamiðils landsmanna í kvöldfréttum sjónvarps, þar sem eingöngu var sýnt frá eggjakasti, en ekkert sýnt af þeirri samstöðu sem þúsundir manna á Austurvelli upplifðu saman, áður en einungis örlítið brot af fólkinu kastaði eggjum að þingheimi. Sjónvarpið sýndi heldur ekkert frá þeim friðsamlega viðburði sem fólk kom til að sýna samstöðu við, engar myndir af ræðum sem þar voru fluttar til stuðnings krafna samtakanna, né heldur af þúsundum friðsamlegra borgara sem stóðu þétt saman. Rúv sýndi síðan yfirlitsmynd frá þeim tíma sem mjög margir voru farnir af Austurvelli, í þeim tilgangi að gera lítið úr fjöldanum. Þúsundir manna voru á Austurvelli þegar mest var um kl. 11. Fjórða valdið er með þessu að bregðast fólkinu í landinu með óábyrgum og hlutdrægum fréttaflutningi í kvöldfréttum.

Samtökin hafa alla tíð flutt sitt mál með rökföstum og málefnalegum hætti og hafa sett fram sínar kröfur í þeim anda. Samstaða fólks á Austurvelli þann 1.okt var gríðarleg og slík samstaða getur einmitt náðst fram með ákaflega friðsömum hætti,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert