„Erum stödd í sósíalistakreppu“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hrunið var afleiðing af misnotkun gallaðrar frjálshyggju en núna erum við stödd í sósíalistakreppu.“ Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í umræðum á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra.

Sigmundur Davíð gagnrýndi harðlega hvernig ríkisstjórnin hefði tekið a skuldamálum heimilanna. Í stað þess að fara þá leið sem Framsóknarflokkurinn benti á strax eftir fall bankanna að afskrifa 20% af skuldum heimilanna, hafi verið farin flókin leið úrræða sem virkuðu ekki nægilega vel. Þetta væru of flóknar og tímafrekar leiðir.

Sigmundur Davíð gagnrýndi tilraunir ríkisstjórnarinnar til að vísa hennar eigin vanda yfir á aðra. Núverandi ástand væri skapað af núverandi valdhöfum og væri á ábyrgð þeirra.

„Ríkisstjórnin er hins vegar ekki reiðubúin til að taka ábyrgð á eigin gjörðum. Þess í stað reynir hún að láta umræðuna snúast um ábyrgð og stöðu Alþingis enda þótt minnihlutinn á þingi hafi ekkert að gera með þá stefnu sem hér er rekin.

Ég frábið mér að ríkisstjórnin reyni að gera þingmenn alla ábyrga fyrir misheppnaðri stefnu sinni og draga Alþingi niður með sér. Eða minnist þess einhver að þegar Jóhanna Sigurðardóttir var í stjórnarandstöðu og gagnrýndi aðgerðir stjórnvalda hafi hún talað um að ábyrgðin væri þingsins alls en ekki ríkisstjórnarinnar?“

Sigmundur Davíð sagði að nú kveinkaði forsætisráðherra, sem haldið hefði lengstu ræðu í 1081 árs sögu Alþingis, sér undan því að þingmenn stjórnarandstöðu talaði of mikið í nokkrum málum.

„Hvað er átt við? Áttum við að tala minna um Icesave svo að hægt væri að þvinga í gegn samning sem hefði stóraukið skuldir ríkisins og kostað 40 milljarða á ári bara í vexti í erlendum gjaldeyri sem ekki er til?
 
Áttum við að tala minna um sjávarútvegsfrumvörpin sem ríkisstjórnin ætlaði að þvinga í gegn án þess að hafa lagt mat á efnahagsleg áhrif þeirra, frumvörp sem fengu ekki eina einustu jákvæða umsögn?

Áttum við að tala minna um gjaldeyrishöftin svo ríkisstjórnin gæti innleitt Austur-þýska fimm ára áætlun í gjaldeyrismálum?  

Áttum við að tala minna um tilraun forsætisráðherra til að færa sér aukin völd, frumvarp sem formaður þingmannanefndarinnar um rannsóknarskýrsluna sagði ganga þvert gegn þeim stjórnkerfisumbótum sem þar var stefnt að og ráðherra í ríkisstjórninni sagði fela í sér harða valdbeitingu?

Við hvað er átt? Staðreyndin er sú að nánast öll mál ríkisstjórnarinnar fara í gegnum þingið mótatkvæðalaust. Á sama tíma fást frumvörp og tillögur stjórnarandstöðuflokkanna varla ræddar, sama hversu skynsamlegt innihald þeirra er.

Jóhanna Sigurðardóttir kvartaði sáran yfir því á árum áður að Davíð Oddsson notaði Alþingi sem afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið. Það er kaldhæðnislegt að Jóhanna hefur nú sjálf fullkomnað afgreiðslukerfið,“ sagði Sigmundur Davíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert