Guðmundur: fáir að mótmæla

Guðmundur Gunnarsson.
Guðmundur Gunnarsson.

„Þessir einstaklingar ganga svo langt að kynna sig sem „þjóðina“,“ skrifar Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins, í harðorðum pistli um þá sem gengu harðast fram í mótmælunum á Austurvelli um helgina. Skammt er síðan Guðmundur hvatti til mótmæla á Austurvelli.

Guðmundur segir fleiri sækja fundi stéttarfélaganna. Eggjakastararnir séu ólátabelgir sem haldi fram „órökstuddum klisjum“. En rúm tvö ár eru síðan hann auglýsti eftir skjaldborginni um heimilin og hvatti almenning til að mótmæla aðgerðaleysi í málefnum heimilanna.

Nú veltir Guðmundur því hins vegar fyrir sér hvort búið sé „eyðileggja útifundaformið hér í Reykjavík“.

„Á undanförnum misserum hafa verið áberandi á útifundum í Reykjavík fámennur hópur ungs fólks, sem hefur það markmið eitt að stofna til óláta og vera með líkamlegt ofbeldi. Þessu fólki tekst vitanlega að ná til sín athygli fjölmiðla og þá er tilganginum náð... Á sama tíma eru stéttarfélögin með öll stærstu veitingahús borgarinnar á leigu, þar eru töluvert fleiri samankomnir og þar fer fram málefnaleg umræða.“

Verkalýðsforystan gagnrýnd

Verkalýðsforystan var gagnrýnd í ræðunum á Austurvelli við þingsetningu á laugardaginn var. Kom fram sú skoðun að verkalýðsleiðtogar hefðu ekki beitt sér sem skyldi við að tryggja hag íslenskra heimila.

Sú gagnrýni vekur athygli í ljósi aðkomu verkalýðsforystunnar að mótmælunum í kjölfar efnahagshrunsins.

Skömmu eftir efnahagshrunið var Guðmundur í hópi þeirra sem töldu tilefni til mótmæla á Austurvelli. Þannig skrifaði hann pistil á vefsíðu sína föstudaginn 14. nóvember 2008 undir fyrirsögninni „Mótmæli“:

„Mætum öll í friðsamleg mótmæli, sýnum samstöðu!“

Nokkrum mánuðum síðar, eða fimmtudaginn 7. maí 2009, taldi Guðmundur í öðrum pistli að ekki hefði verið gert nóg fyrir íslensk heimili. Höfðu mótmælendur þá ítrekað gengið hart fram gegn lögreglu og nokkrir þeirra gripið til þess ráðs að kasta saur í átt að laganna vörðum.

Guðmundur hvatti til mótmæla daginn eftir með þessum orðum en fyrirsögnin var „Mótmæli á morgun - Heimilin í forgang!“:

„Á morgun, föstudaginn 8. maí 2009 verða mótmæli vegna aðgerðarleysis íslenskra stjórnvalda gagnvart stöðu heimilanna í landinu.

Staðsetning Alþingishúsið klukkan 13.00. Fjölmennum því á morgun við Alþingishúsið klukkan 13.00, göngum síðan upp að Stjórnarráði þar sem ríkisstjórnin mun sitja að störfum og látum í okkur heyra.

Við viljum minna stjórnvöld á að heimili landsmanna eru að brenna upp í skuldum og að sú „Skjaldborg“ sem slá átti um heimilin sé hvergi sjáanleg. Þolinmæði flestra Íslendinga er að þrotum komin!

Almenningur í landinu hefur þurft að sýna ótakmarkaða þolinmæði gagnvart stjórnvöldum sem á móti sýna landsmönnum enga vægð þegar innheimtuaðgerðir eru annars vegar. Margir sjá ekki að þeir eigi annarra kosta völ en að fara í greiðsluverkfall.

Skjaldborg óskast! Björgum heimilunum! Heimilin í forgang!

Í gegnum tíðina hafa stjórnvöld hlustað þegar að almenningur fjölmennir og mótmælir, reynslan hefur sýnt okkur það og kennt okkur það að samstaða er það eina sem skiptir máli.

Sýnum samstöðu - Mætum öll!,“ skrifaði Guðmundur í pistlinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert