Óviðunandi ofbeldi

Lögreglumenn við þinghúsið á laugardag.
Lögreglumenn við þinghúsið á laugardag. mbl.is/Júlíus

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segist harma framkomu sumra mótmælenda þegar Alþingi var sett á laugardagsmorgun og segir að hún hafi verið  óviðunandi.

,,Það hafa oft verið mótmæli fyrir utan Alþingishúsið og það er fátt eðlilegra, enda búum við í lýðræðisríki, en að fara svona fram eins og var gert á laugardaginn er auðvitað alveg óásættanlegt. Ofbeldi er alltaf óásættanlegt. Það er auðvitað ofbeldi að grýta fólk, hvort sem það er gert með eggjum; harðsoðnum eða linsoðnum, eða einhverju öðru,“ sagði Helgi.

Hann sagðist jafnframt halda að umgjörð í kringum mótmæli yrði nú endurskoðuð.

,,Ég held að forsetar þingsins fari að hugsa sinn gang núna þegar þetta hefur endurtekið sig. Ég held að það hljóti að koma til þess að menn endurskoði hvernig að þessu er staðið.“

Ekkert tjón á Alþingishúsinu

Mótmælunum á Austurvelli var að mestu lokið upp úr hádegi á laugardaginn og þá var hafist handa við að þrífa Alþingishúsið og gangstéttina fyrir framan það. Að sögn Helga slapp Alþingishúsið nokkuð vel.

,,Það fóru náttúrulega eggja- og matarslettur á húsið, en húsið varð ekkert illa úti. Við erum auðvitað mjög viðkvæm fyrir þessu af því að þrif á þessu húsi eru mjög erfið. Þetta er viðkvæmur og gljúpur steinn og menn hafa sagt að það sé á við áratuga veðrun að þrífa húsið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert