Unnu í Noregi fyrir lúsarlaun

Quality Hotel Expo, sem verið er að byggja á Fornebu.
Quality Hotel Expo, sem verið er að byggja á Fornebu.

Norska ríkisútvarpið, NRK, segir að íslenskir pípulagningamenn hafi lúsarlaun, 54 norskar krónur á tímann, eða tæpar 1100 krónur íslenskar, í byggingarvinnu í Noregi. Slíkt sé gróft brot á vinnumarkaðslögum.

NRK segir, að um 20 Íslendingar starfi fyrir fyrirtæki, sem er að reisa stóra byggingu á Forneboe þar sem verður til húsa hótel, skrifstofur og rannsóknarstofur. Nokkrir af ríkustu mönnum Noregs, þar á meðal  Petter Stordalen, Arthur Buchardt og Kjell Inge Røkke munu leigja þarna húsnæði.

NRK hefur eftir Daníel Gunnarssyni, einum af íslensku pípulagningamönnunum, að þeir fái ekki greitt samkvæmt norskum lögum heldur íslenskum lögum. Þá segir hann, að þótt launin þyki lág í Noregi séu þau ekki eins lág þegar þau séu reiknuð í íslenskum krónum. 

Íslendingarnir starfa á vefum fyrirtækisins Pípulagnaverktaka ehf. Haft er eftir Þorsteini Péturssyni, verkefnisstjóra, að vissulega séu greidd lág laun en það stafi af misskilningi. Áður en verkefnið hófst í Noregi hafi fyrirtækið fengið ranga ráðgjöf um hvernig reikna eigi launin út. 

NRK segir, að norska vinnueftirlitið telji að um geti verið að ræða gróft brot á vinnumarkaðslögum og er að rannsaka málið.  

Vefur norska ríkisútvarpsins

Rangfærslur í frétt NRK

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert