Vilja heimila sölu á heimabakstri

Þingmenn Framsóknarflokks viðja heimila sölu á heimabakstri.
Þingmenn Framsóknarflokks viðja heimila sölu á heimabakstri. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um matvæli.  Með frumvarpinu er lagt til að heimilað verði að veita leyfi til sölu á matvælum sem ekki eru bökuð í sérstökum eftirlitsskyldum eldhúsum.

Skilyrði fyrir slíkri undanþágu er að framleiðslan sé vegna góðgerðarstarfsemi, til að styrkja félagastarf eða í öðrum sambærilegum tilgangi. Samkvæmt frumvarpinu verður lagt til að leyfi vegnar slíkrar sölu sé tímabundið og einungis veitt vegna tiltekins atburðar. Dæmi um slíkt gæti verið kökubasar sem haldinn er í góðgerðarskyni.    
 
Í fréttatilkynningu segir að frumvarpið sé í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 852/2004, frá 29. apríl 2004, um hollustuhætti á matvælum en þar er kveðið á um það að hún gildi „ekki um frumframleiðslu til einkanota á heimilum eða um vinnslu, meðferð eða geymslu matvæla á heimilum til einkaneyslu.
 
„Með frumvarpinu vonumst við til að heimila það sem áður var leyft, þ.e. koma á sömu stöðu og áður en við innleiddum evrópsku matvælalöggjöfina alla ásamt reglugerðum“, segir Sigurður Ingi Jóhannsson þingmaður Framsóknarflokksins. „Við teljum að það sé mikilvægt fyrir líknarfélög, íþróttafélög, kvenfélög og önnur sambærileg félög að eiga þennan sögulega og menningarlega rétt. Jafnframt  er það félagsstarfinu afar nauðsynlegt bæði vegna fjáröflunarinnar sem og þeirra jákvæðu félagslegu áhrifa á sjálfboðavinnu í fjöldahreyfingum. Unnið hefur verið að frumvarpinu síðan í sumar en okkur gafst ekki tækifæri á að leggja það fram á þinginu í september. Við búumst við að frumvarpið eigi greiða leið í gegnum þingið, enda mikilvægt og brýnt að eyða óvissu á þessu sviði“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert