Plast endurunnið í bílaeldsneyti

Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri SORPU með plasthráefni og verkefnisstjórinn Ómar …
Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri SORPU með plasthráefni og verkefnisstjórinn Ómar Frey Sigurbjörnsson, deildarstjóri yfir rannsóknar og þróunardeild CRI, heldur á metanóli í tilraunaglasi fyrir framan gösunarstöðina. Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís.

Nýtt samstarfsverkefnis SORPU, NMÍ og Carbon Recycling International (CRI) hefur það markmið að þróa aðferð til að endurvinna úrgang svo sem plast og litað timbur sem fljótandi bílaeldsneyti.

Carbon Recycling International (CRI) hefur í samstarfi við SORPU og NMÍ útibúið aðstöðu til að rannsaka og þróa nýja tækni til að umbreyta fljótandi og föstum úrgangi í fljótandi eldsneyti. Verkefnið hlaut nýlega einn stærsta styrk Tækniþróunarsjóðs Rannís.  Gangi allt að óskum er von til að hægt verði að endurvinna stóran hluta af úrgangi og öðrum vannýttum hráefnum sem nú eru urðuð hér á landi, svo sem plasti, og búa til úr því fljótandi eldsneyti.  Með þessari tækni verður því unnt að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda og framleiða meira af vistvænu eldsneyti úr tiltæku innlendu hráefni sem ella fer til spillis.

Hráefnið til eldsneytisframleiðslu með þessari nýju aðferð getur verið kolefnisríkur úrgangur af ýmsum toga. Þar má nefna plastílát, ónýt veiðarfæri eða úrgangstimbur.  Við gösun þessara kolefnisríku efna við meira en 800 gráðu hita verður til svonefnd hrágasblanda af kolsýringi, koltvísýringi og vetni sem breyta má með efnahvata í fljótandi metanól. Metanólinu er svo blandað við bensín og brennt í venjulegum bílvélum.

CRI hefur þegar lokið við smíði verksmiðju til að vinna endurnýjanlegt metanól úr koltvísýringi og grænni orku úr jarðhita, við hlið orkuversins í Svartsengi. Með nýju rannsóknaraðstöðunni sem staðsett er í tilraunaverksmiðju CRI við Höfðabakka í Reykjavík er ætlunin að afla gagna til að kanna fýsileika á uppsetningu gösunarstöðvar í Svartsengi sem kæmi sem viðbót við metanólverksmiðjuna. Slík gösunarstöð mun jafnframt nýta afgangs súrefni sem til fellur í verulegum mæli við rafgreiningu vatns í vetni og súrefni.

Endurvinnsla á úrgangi getur dregið úr kostnaði við framleiðslu á endurnýjanlegu fljótandi eldsneyti og dregið úr þörf fyrir urðunarstaði, kostnaðarsama förgun eða ómarkvissa endurvinnslu.  Verkefnið mun njóta góðs af mikilli reynslu SORPU við meðhöndlun og forvinnslu á ólíku hráefni svo sem á mismunandi pappír, plasts og lífmassa. Einnig verða aðferðir til hreinsunar á gasinu þróaðar og áhrif mismunandi efnahvata og stillingar gösunarstöðvar rannsakaðar áður en ráðist er í gerð verksmiðju á framleiðsluskala.

Gangi áætlanir eftir verður til tækni sem getur dregið úr kostnaði við framleiðslu á fljótandi vistvænu eldsneyti, minnkað heildarútblástur gróðurhúsalofttegunda, aukið endurvinnslu á úrgangi, dregið úr urðun og haft veruleg áhrif á kolefnisfótspor Íslendinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert