Viðurkenning á fullveldi ekki skaðleg

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, mælti á Alþingi í dag fyrir þingsályktunartillögu um að ríkisstjórnin viðurkenni á sjálfstæði og fullveldi Palestínu. Sagði Össur m.a. að hann teldi enga hættu á, að samþykkt þessarar tillögu skaðaði friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs.

Sagði Össur, að það sem hann teldi að menn ættu að leggja til grundvallar, þegar þeir veltu þessu máli fyrir sér, væri í fyrsta lagi hvort menn ættu að taka afstöðu með hjartanu eða með rökum, og menn eiga að gera hvorutveggja sagði Össur; og í öðru lagi hvort samþykkt þessarar tillögu gæti með einhverjum hætti skaðað friðarferlið.

„Ég tel að svarið sé mjög afdráttarlaust nei. Ég er þeirrar skoðunar, svo ég lýsi aðeins viðhorfum mínum gagnvart stöðu Ísraels, að fyrir þá sé núna um það bil síðasta lestin til friðar að fara af stöðinni. Ég tel að það sér afar brýnt fyrir þá, og stöðu þeirra til að tryggja þeirra öryggi til frambúðar, að það verði gengið í það af alþjóðasamfélaginu, að viðurkenna Palestínu og aðstoða þá við fyrstu skrefin sem fullvalda og sjálfstætt ríki. Um leið verði gert friðarsamkomulag sem byggist á landamærunum eins og þau voru fyrir 1967," sagði Össur.

Hann sagðist sammála þeirri skoðun, að forsvarsmenn Palestínu yrðu einnig að gefa skýra  yfirlýsingu um að þeir stefni að friðsamlegri sambúð og hafni vopnuðum átökum.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í umræðunni að nauðsynlegt sé að utanríkismálanefnd þingsins fengi góðan tíma til að fjalla um þessa tillögu.

Hann sagði að sannarlega skipti það þjóðir máli að fá viðurkenningu fyrir fullveldi sínu en nauðsynlegt væri að skoða hvaða afstöðu aðrar þjóðir tækju í þessu máli. Vísaði hann m.a. til afstöðu Norðmanna. 

Þá væri það alls ekki svo, að þeir sem hefðu minnstu efasemdir um að tímabært væri að lýsa yfir sjálfstæði Palestínu væru á móti palestínsku ríki. Átökin á svæðinu hefðu hins vegar snúist um Ísraelsríki.

Bjarni sagði, að hann myndi í utanríkismálanefnd fyrst og fremst líta til þess í umfjöllun um tillöguna, hvort með þessu skrefi, að viðurkenna Palestínuríki, væri hægt að ýta undir frið á svæðinu eða hvort ákvörðunin gæti ógnað friðarviðræðunum með einhverjum hætti. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert