Brúa verður bil milli ríkra og fátækra

Kofi Annan flytur erindi sitt í Háskóla Íslands.
Kofi Annan flytur erindi sitt í Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn

Kofi Annan, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði á hátíðarmálþingi Háskóla Íslands í dag, að mikilvægt væri að stjórnvöld næðu að koma á jafnvægi milli þeirra sem sköpuðu tekjurnar og þeirra sem minna mættu sín og að bil milli þeirra ríku og fátæku væri brúað.

Annan er heiðursgestur málþingsins sem haldið er í tilefni af aldarafmæli skólans.

Hann sagði í erindi sínu að atvinnuleysi mundi flytjast milli kynslóða sem gætui í kjölfarið ekki lært að leggja til það sem þyrfti til að halda samfélaginu gangandi. „Það er kaldhæðnislegt, að unga fólkið býr yfir tækninni sem við þurfum á að halda en í uppsögnum er unga fólkið fyrst látið fara," sagði Annan.

Hann lagði mikla áherslu á að nú yrðu mennirnir að læra að lifa með náttúrunni og hugsun og lifnaðarhættir þyrftu að verða grænni. Áhrif slíkra breytinga gætu verið eins áhrifamikil og iðnbyltingin á sínum tíma.

„Við getum ekki haldið áfram að lifa eins og enginn sé morgundagurinn," sagði Kofi Annan.

Í lok ræðu sinnar sagði Kofi Annan: „Ég vanmet ekki hversu stór og yfirgripsmikil verkefni eru fyrir höndum en við verðum að koma á trausti fyrir sameiginlega framtíð okkar.  Við sjáum nú þegar að unga fólkið stígur fram og hefur umtalsverð áhrif. Unga fólkið veit að það mun erfa heiminn og ákvarðanirnar í dag munu hafa meiri áhrif á það en aðra. Ég segi því: vertu breytingin sem þú vilt sjá. Ekki standa hjá og horfa á. Ábyrgðin á þátttöku er þín. Unga fólkið spyr, hvað á ég að gera? Ég svara: það byrjar í þínu eigin samfélagi, á þínu heimili. Ef þú sérð eitthvað rangt gerðu þá eitthvað í því og leiðréttu það. Ef allir leggja sitt af mörkum verður framlagið ansi stórt. Svo farið út og verið hin nauðsynlega breyting."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert