Jafnréttisdagar framundan

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Ómar

Jafnréttisdagar Háskóla Íslands hefjast á morgun og standa til 27. október nk. Þetta er þriðja árið í röð sem efnt er til Jafnréttisdaga í skólanum. Fræðileg umfjöllun og fjölbreyttir listviðburðir munu einkenna dagskrána.

Markmiðið með Jafnréttisdögum er að stuðla að fræðslu og aukinni umræðu og skilningi á jafnréttismálum í víðum skilningi, innan sem utan háskólasamfélagsins, og gera með því jafnréttismál sýnilegri. Ókeypis er á alla viðburði Jafnréttisdaga og aðgangur er öllum heimill.

Sem fyrr er fræðileg umfjöllun um jafnréttismál í fyrirrúmi en í ár er lögð aukin áhersla á fjölbreytta dagskrá, ekki síst listviðburði. Jafnréttisdagar í ár eru því m.a. í samstarfi við Nýlistasafnið, Endemi - tímarit um samtímalist íslenskra kvenna og framandverkaflokkinn Kviss Búmm Bang. Þannig mun Kviss Búmm Bang sýna verkið Svo eðlilegur náungi á Háskólatorgi og hljóðverkssýningin Endemis óhljóð verður einnig flutt þar.

Dagskránni lýkur fimmtudaginn 27. október með lokahófi í Tjarnarbíói þar sem fram koma Hildur Knútsdóttir, Óttar M. Norðfjörð og listahópurinn Kviss Búmm Bang sem mun binda endahnútinn á verk sitt. Hægt er að kynna sér dagskrá Jafnréttisdaga á vefsíðunni http://www.hi.is/is/skolinn/jafnrettismal

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert