Stöðum á Landspítala fækkar um 85

Björn Zoëga, forstjóri Landspítala, kynnir sparnaðaraðgerðirnar fyrir starfsmönnum spítalans í …
Björn Zoëga, forstjóri Landspítala, kynnir sparnaðaraðgerðirnar fyrir starfsmönnum spítalans í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Landspítalinn þarf að fækka stöðugildum á spítalanum um 85 á næsta ári vegna skertra fjárframlaga. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fær hann 630 milljónum minna til reksturs á næsta ári en í ár.

Til að bregðast við þessu hefur spítalinn ákveðið að loka réttargeðdeildinni á Sogni, loka hjúkrunardeild á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og loka líknardeild á Landakotsspítala.

Björn Zoëga, forstjóri Landspítala, kynnti sparnaðaraðgerðirnar fyrir starfsmönnum spítalans í dag.

Á fundinum kom fram að frá árinu 2007 hafa fjárframlög til Landspítala (án St. Jósefsspítala og Rjóðurs) lækkað um 23% eða úr 41.276 milljónum í 31.752 milljarða á næsta ári. Starfsmönnum Landspítala hefur fækkað um 597 þrátt fyrir að St. Jósefsspítali og Landspítali hafi verið sameinaðir á tímabilinu. Fækkunin er því í reynd yfir 700. Rannsóknum hefur fækkað um 19% og rúmum um 90.

Til að mæta kröfu um hagræðingu á næsta ári verður gripið til margþættra aðgerða. Lokun St. Jósefsspítala mun skila mestum sparnaði eða um 180 milljónum. Stefnt er að því að spara 100 milljónum með vörustjórnun, þ.e. lækkun kostnaðar vegna útboða og endurskipulagning á lagerum. Spara á 60 milljónir með lækkun lyfjakostnaðar. 54 milljónir sparast með lokun á Sogni og 50 milljónir með lokun líknardeildarinnar á Landakoti.

Björn Zoëga segir að lítil aukning hafi orðið á starfsemi Landspítala á árunum 2009 og 2010 eða í kringum 1%. Greinileg breyting hafi hins vegar orðið í ár. Á fyrstu átta mánuðum þessa árs hafi orðið 8% aukning á innlögnum, 4% aukning hafi orðið á öllum bráðamóttökum og 4% fleiri skurðaðgerðir hafi verið gerðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert