Grímulaust óréttlæti

Starfsgreinasambandið  segir, að það geti ekki og ætli ekki undir nokkrum kringumstæðum að sætta sig við það grímulausa óréttlæti sem íslensk heimili hafi mátt þola frá hruni.

„Stórum hluta forsendubrestsins hefur verið varpað miskunnarlaust yfir á heimili landsins á sama tíma og slegin hefur verið skjaldborg utan um kröfuhafa og erlenda vogunarsjóði," segir í ályktun sem samþykkt var á þingi sambandsins í dag.

Er þess krafist, að bankar og fjármálastofnarnir leiðrétti skuldir heimilanna með fullnægjandi hætti vegna forsendubrestsins.

Í annarri ályktun er þess krafist, að ríkisstjórnin standi við gefin loforð um auknar framkvæmdir svo hægt verði að fjölga störfum og draga þannig úr atvinnuleysi. Ella stefni allt í það að forsenda kjarasamninganna, sem gerðir voru fyrr á þessu ári, bresti.

Loks mótmælti þing Starfsgreinasambands  þeirri fyrirætlan stjórnvalda að þrengja að skattfrelsi lífeyrisiðgjalda í séreignarlífeyrissjóði eins og  boðað er í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár.

„Þing Starfsgreinasambandsins krefst þess að stjórnvöld láti af þessum vanhugsuðu fyrirætlunum. Afleiðingin mun verða minni sparnaður til framtíðar. Slíkt er sérstaklega óheppilegt nú þegar þjóðin þarf á sparnaði að halda til þess að auka fjárfestingar til að leggja grunn að aukinni verðmætasköpun," segir í ályktun frá þinginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert