Hummerinn var brotajárn

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, flytur málið í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, flytur málið í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn

Jóhannes Jónsson, kenndur við Bónus, sagði fyrir dómi í dag að Jón Ásgeir sonur hans hefði ekki notað, a.m.k. ekki neitt að ráði, þrjá bíla sem voru í eigu Gaums. Porcshe 911 bíllinn hafi frekar verið fjárfesting og fyrrverandi eiginkona Jóns Ásgeirs hafi verið með Cherokee-jeppann. Hummerinn hafi flokkast sem brotajárn.

Jón Ásgeir er ákærður fyrir að hafa haft afnot af bílunum án þess að greiða skatt af þeim hlunnindum.

Í málinu hefur töluvert verið fjallað um hver það var sem ákvað að fyrrum eiginkona Jóns Ásgeirs skyldi aka um á Cherokee-jeppa sem var í eigu Gaums, fjölskyldufyrirtækis Bónus-fjölskyldunnar.

Fyrir dómi í dag sagði Jóhannes að afnotin hafi verið með hans samþykki en Jóhannes var framkvæmdastjóri Gaums fram til 1999 þegar Kristín, dóttir hans, tók við. Hún hafi verið hluthafi í fyrirtækinu og eðlilegt að hún nyti hlunninda af því. Inntur eftir því hvort Kristín hefði starfað fyrir Gaum sagði Jóhannes að hún hefði starfað við að breiða út fagnaðarerindið, þ.e. um gæði fyrirtækisins.

Jóhannes sagði jafnframt að kaupin á Porsche-bifreiðinni hefði verið fjárfesting enda hefðu þessir bílar hækkað í verði eftir því sem þeir urðu eldri. „Hummerinn flokkast nú frekar undir brotajárn heldur en bifreið," sagði hann. 

Aðspurður sagði Jóhannes að Jón Ásgeir hefði sjálfsagt getað notað þessa bíla en hann efaðist um að hann hefði komist yfir það, svo marga bíla hefði hann átt sjálfur.

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, vísaði í yfirheyrslunni til skýrslu Jóhannesar þar sem m.a. hefði komið fram að Jón Ásgeir hefði einmitt haft afnot af fyrrnefndum bílum auk fleiri tækja, s.s. snjósleða. Jóhannes kvaðst ekki muna glöggt eftir þessu, enda langt um liðið. „Já, já, þetta voru náttúrulega smámunir á þessum tíma," sagði hann.

Síðar sagðist hann sjálfur hafa átt um 150 bíla í gegnum tíðina en það hafi ekki verið ofarlega í hans huga að fylgjast með hvernig staðið var að skilum á þeim afnotum.

Jón Ásgeir og Kristín eru bæði ákærð fyrir skattsvik í tengslum við sameiningu Bónuss og Hagkaupa. Jóhannes kvaðst ekki telja að Kristín hefði komið neitt nálægt samningsgerðinni enda hefði hún verið búsett í Danmörku á þessum tíma. Færustu menn hefðu verið fengnir til ráðgjafar. Sjálfur hefði hann mjög lítil afskipti haft af þessum málum.

Jóhannes Jónsson
Jóhannes Jónsson mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert