Betri Reykjavík opnuð

Jón Gnarr og Reykvíkingur ársins, Gunnlaugur Sigurðsson, opna vefinn Betri …
Jón Gnarr og Reykvíkingur ársins, Gunnlaugur Sigurðsson, opna vefinn Betri Reykjavík í dag.

Jón Gnarr borgarstjóri opnaði nýjan samráðsvettvang fyrir Reykvíkinga á netinu í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi í dag. Vefurinn heitir Betri ReykjavíkGunnlaugur Sigurðsson, sem var valinn Reykvíkingur ársins 2011, setti inn fyrstu hugmyndina á vefinn.

Snýst hugmynd Gunnlaugs um að stofna sérstaka aðstöðu fyrir veggjakrotara þar sem þeir geta fengið útrás fyrir iðju sína undir leiðsögn. Á Betri Reykjavík mun íbúum borgarinnar gefast tækifæri allan ársins hring til að setja fram hugmyndir sínar um málefni er varða þjónustu og rekstur Reykjavíkurborgar, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Íbúar munu geta skoðað fram komnar hugmyndir annarra, stutt þær eða verið á móti þeim. Einnig er hægt að setja fram rök og umræðupunkta um hugmyndir á vefnum. Reykjavíkurborg skuldbindur sig til að taka mánaðarlega fimm efstu hugmyndirnar af Betri Reykjavík til formlegrar meðferðar viðkomandi fagráða. Munu fagsvið borgarinnar síðan framkvæma samþykktar hugmyndir. Verður ferli hugmynda sýnilegt á vefnum.

Málaflokkar sem notendur geta skráð hugmyndir á eru ferðamál, framkvæmdir, frístundir og útivist, íþróttir, mannréttindi, menning og listir, menntamál, samgöngur, skipulagsmál, stjórnsýsla, umhverfismál og velferðarmál. Reykjavíkurborg hvetur borgarbúa til að kynna sér vefinn Betri Reykjavík, koma með hugmyndir og taka þátt í alvöru samráðsvettvangi um hin ýmsu málefni borgarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert