Útlit fyrir almenna hækkun tekjuskatts

Símon Þór og Jakob Björgvin segja, að efast megi um …
Símon Þór og Jakob Björgvin segja, að efast megi um gildi yfirlýsingar fjármálaráðherra þegar hann segi að frumvarpið geri ekki ráð fyrir neinum almennum skattahækkunum. mbl.is/Golli

Það er útlit fyrir almenna hækkun tekjuskatts einstaklinga á næsta ári nái boðaðar breytingar í fjárlagafrumvarpinu að ganga.

„Samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er ætlunin að hækka fjárhæðarmörk skattþrepa tekjuskattstofns um 3,5% í upphafi tekjuársins 2012 í stað þess að miða við launavísitölu eins og lög kveða á um. Launavísitalan hefur hækkað um 8% síðastliðna 12 mánuði og viðmiðun við hana er því mun hagstæðari fyrir launþega en viðmiðun við þá 3,5% hækkun sem boðuð hefur verið,“ segja þeir Símon Þór Jónsson, forstöðumaður á skatta- og lögfræðisviði Deloitte hf., og Jakob Björgvin Jakobsson, lögfræðingur á skatta- og lögfræðisviði Deloitte hf., í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Þeir benda á, að fjármálaráðherra hafi fullyrt á Alþingi 4. október sl. að fjárlagafrumvarpið hafi ekki gert ráð fyrir neinum almennum skattahækkunum á næsta ári.

Þá benda Símon Þór og Jakob Björgvin á að persónuafsláttur sé tengdur við neysluverðsvísitölu og dragist frá tekjuskatti. Vegna vísitölubindingarinnar hækki persónuafslátturinn og það leiði til þess að tekjuskattur einstaklinga verði lægri en ella. Neysluverðsvísitölubinding persónuafsláttarins sé hins vegar í gildandi löggjöf og forsenda sem einstaklingar hafi getað gengið út frá óháð fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2012. Launavísitölubinding skattþrepanna sé einnig í gildandi löggjöf og því einnig forsenda sem einstaklingar hafi getað gengið út frá óháð fjárlagafrumvarpinu.

„Nú er fyrirhugað, samkvæmt því sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu, að breyta síðarnefndu forsendunni, einstaklingum í óhag, þannig að þeir þurfa almennt að greiða hærri tekjuskatt vegna tekna á árinu 2012 en þeir gátu gengið út frá áður en fjárlagafrumvarpið kom fram. Í því sem boðað er í fjárlagafrumvarpinu felst því almenn hækkun tekjuskatts á einstaklinga, þ.e. nánar tiltekið á þá sem verða með meira en 217 þúsund kr. í mánaðartekjur á árinu 2012,“ segir í greininni.

Þeir segja ljóst að fyrirhuguð breyting samræmist illa yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí 2011, um að engin sérstök áform hafi verið um breytingar á skattlagningu launa, þar sem boðuð breyting feli í sér meiri skattlagningu launatekna 2012 en ella og væntanlega einnig meiri skattlagningu launatekna 2013.

Símon Þór Jónsson.
Símon Þór Jónsson.
Jakob Björgvin Jakobsson.
Jakob Björgvin Jakobsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert