Fréttaskýring: Allt byggt á misskilningi?

Jóhanna Sigurðardóttir og Ólafur Ragnar Grímsson túlka hlutina ólíkt.
Jóhanna Sigurðardóttir og Ólafur Ragnar Grímsson túlka hlutina ólíkt. mbl.is/Golli

Bréfaskipti sem forseti Íslands og forsætisráðherra áttu á síðasta ári um verkefni forsetans og afskipti forsætisráðherra af forsetaembættinu hafa nú verið birt í samræmi við niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Málið hófst 11. júní 2010 þegar skrifstofu forseta Íslands barst bréf frá forsætisráðuneytinu þar sem vísað er til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Óskað er eftir viðhorfum forsetaembættisins til þess hvernig staðið verði að því að setja reglur um hlutverk og verkefni forsetans, samskipti hans við önnur ríki og siðareglur forsetaembættisins. Í kjölfarið eiga Ólafur Ragnar Grímsson og Jóhanna Sigurðardóttir fund þann 25. júní. Eftir hann sendir forsetaembættið bréf til forsætisráðneytisins þar sem segir að á fundinum hafi komið fram að bréfið frá 11. júní byggðist á margháttuðum misskilningi og ekki væru forsendur til að bregðast frekar við því.

Ekki tilraun til íhlutunar

Eitthvað virðast Ólafur og Jóhanna hafa rangtúlkað hvort annað á fundinum því 1. júlí berst forsetaembættinu bréf frá forsætisráðuneytinu þar sem kemur fram að skilningur forsætisráðherra á fundi með forseta sé annar. „Telji forsetaembættið að umræddar tillögur eða aðkoma forsætisráðherra sé á misskilningi byggð er óskað eftir því að sú afstaða sé rökstudd með skriflegum hætti,“ segir í bréfinu.

Ólafur Ragnar bregst hart við og 13. júlí sendir hann bréf til Jóhönnu þar sem hann sakar hana um rakalausa tilraun til íhlutunar. Hann segir að bréfaskrifin frá embættismönnum forsætisráðuneytisins eigi sér engin fordæmi og ítrekar að forsetinn heyri ekki undir forsætisráðuneytið. „Alþingi hefur í framhaldi af skýrslunni ekki falið forsætisráðuneytinu erindrekstur gagnvart forseta Íslands enda hefur forsetaembættið nú þegar átt gott og gagnlegt samstarf við þingmannanefndina án atbeina forsætisráðuneytisins. Sú staðreynd sýnir að málatilbúnaður forsætiráðuneytisins í fyrrgreindum bréfum er rakalaus tilraun til íhlutunar í samskipti forsetaembættisins og Alþingis,“ skrifar Ólafur. Honum er það óskiljanlegt hvers vegna ráðuneytið hefur afskipti af málum með þessum hætti en vera kunni að afskiptin eigi rætur í þeirri tilhneigingu forystumanna ríkisstjórnar að fara út fyrir eðlileg valdmörk sín.

Jóhanna svarar Ólafi tveimur dögum síðar þar sem hún ítrekar að bréfið hafi aðeins falið í sér beiðni um tilteknar upplýsingar og í því hafi hvorki verið tilskipanir né tilraun til íhlutunar. Hún segir engan misskilning hafa átt sér stað á fundi þeirra, hún hafi óskað eftir efnislegu svari við bréfi sínu frá 11. júní.

Bæði undirstrika þau það í bréfum sínum að mikilvægt sé að góð og skilvirk samskipti séu á milli embættanna. Jóhanna sendir þó Ólafi tóninn og vonast til að hún geti átt samskipti við forseta Íslands án þess að þau séu túlkuð sem íhlutun í starf hans eða að hún sé að fara út fyrir eðlileg valdmörk sín.

Ólafur Ragnar lætur engan segja sér fyrir verkum

„Þetta er eins fordæmalaust og margt annað í valdatíð Ólafs Ragnars Grímssonar á Bessastöðum,“ segir Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur um bréfaskipti forseta og forsætisráðherra. Spurður hvort forsetinn sé að fara út fyrir valdsvið sitt svarar Guðni að vandinn liggi frekar í því að stjórnarskráin skapi ekki skýran ramma eða reglur um samskipti forsetans við löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið. „Ólafi finnst það bara kostur þótt öðrum þyki það galli. Það er ljóst að forsætisráðherra hefur fundist hann fara freklega út fyrir valdsvið sitt og höfundum siðferðiskaflans í rannsóknarskýrslu Alþingis fannst að fyrir hrun hefði forsetinn stigið út fyrir verksvið sitt að mörgu leyti og þess vegna lögðu þeir til að forsætisembættið setti sér siðareglur. En Ólafi finnst það vera rakalaus íhlutun.“

Samskipti forseta og forsætisráðherra eru að breytast að sögn Guðna. „Auðvitað skipta einstaklingarnir máli í því. Ólafur Ragnar er bara þannig karakter að hann þarf sitt svigrúm og lætur engan segja sér fyrir verkum. Það liggur í augum uppi að forsætisembættið, burtséð frá því hver situr í því, hefur breyst mjög mikið. Sá eða sú sem býður sig fram til forseta næst þegar kosið verður þarf að svara allt öðruvísi spurningum en voru uppi 1996 eða 1980 og þar á undan. Auðvitað þróaðist þetta embætti í áranna rás og hver forseti setti mark sitt á það en ég held að það sé óhætt að segja að enginn hafi breytt því jafnmikið og Ólafur Ragnar Grímsson.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert