5 ára fangelsi fyrir nauðgun

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt Birki  Árnason í fimm ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað konu aðfaranótt 31. júlí sl. á útisalerni á Þjóðhátíðarsvæði í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum. Þá er Birki gert að greiða konunni 1,2 milljónir kr. í miskabætur.

Í dómi héraðsdóms segir að Birkir þyki ekki eiga sér neinar málsbætur. Hann hafi gerst sekur um mjög grófa og ruddalega árás á konuna, líkama hennar og kynfrelsi.  Eru afleiðingar brots Birkis augljósar. 

„Er jafnframt óhjákvæmilegt að líta til hins einbeitta brotavilja ákærða sem birtist í þeirri háttsemi hans að draga brotaþola aftur með ofbeldi inn á kamarinn til að koma fram vilja sínum, eftir að hún hafði sloppið frá honum í hið fyrra sinni, en ákærða gat síst dulist það að athafnir hans allar og háttsemi gagnvart brotaþola voru ekki með hennar samþykki,“ segir í dómi Héraðsdóms Suðurlands.

Birkir, sem hefur þrívegis áður sætt refsingu, þvingaði konuna til samræðis og annarra kynferðismaka með því að ýta henni inn á salernið er hún var að koma þaðan út,  farið inn fyrir klæðnað hennar og sett fingur í kynfæri hennar og er hún náði að komast út, elt hana skamman spöl, neytt hana með ofbeldi til að fara aftur inn á salernið, rifið niður um hana buxur og nærbuxur og haft við hana samræði. 

Við atlöguna hlaut konan mar, roða og eymsli víðsvegar um líkamann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert