Stolt af því að vera formaður áfram

Jóhanna Sigurðardóttir þakkar landsfundarfulltrúum fyrir nú síðdegis.
Jóhanna Sigurðardóttir þakkar landsfundarfulltrúum fyrir nú síðdegis.

„Ég er stolt af því að vera formaður ykkar áfram," sagði Jóhanna Sigurðardóttir þegar kjöri hennar sem formanns Samfylkingarinnar var lýst sú síðdegis á landsfundi flokksins.

Jóhanna var sjálfkjörin í embættið og Dagur B. Eggertsson var sjálfkjörinn í embætti varaformanns. 

Jóhanna sagði, að Samfylkingin hefði skilað miklum árangr á síðustu tveimur árum og verið sterk og sýnt þrautsegju í þeim erfiðu viðfangsefnum, sem við var að glíma. „Fyrir það er ég þakklát, að hafa fengið tækifæri til að starfa með ykkur að þessum verkefnum," sagði Jóhanna.

„Þessi verkefni, sem eru að baki hafa einnig opnað okkur leið til að taka á þessum stóru viðfangsefnum, sem eru framundan og ég lýsti í minni setningarræðu," sagði Jóhanna ennfremur. „Þetta er stór flokkur, sem setur nú á dagskrá stór og mikilvæg verkefni."

Hún sagði, að Samfylkingin væri eini flokkurinn, sem stæði sterkur og samhentur eftir það erfiða tímabil, sem liðið væri frá hruninu.

„Ég á mér þann draum, að eftir tvö ár geti ég staðið hér og sagt keik við ykkur: Okkur tókst þetta, góðir félagar," sagði Jóhanna eftir að hafa lýst verkefnunum sem framundan eru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert