Höggva í raðir stuðningsmanna VG

Ragnar Arnalds.
Ragnar Arnalds. mbl.is/Skapti

Ragnar Arnalds, fyrrverandi fjármálaráðherra og formaður Alþýðubandalagsins, telur líklegt að framsóknarmenn höggvi drjúgt inn í raðir þeirra sem stutt hafa VG, ef svo fer fram sem horfir í Evrópumálunum.

Í grein á bloggi Vinstrivaktarinnar gegn ESB vitnar Ragnar til orða Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar, um að ekki hefði verið sótt um aðild að Evrópusambandinu án stuðnings VG. 

Segir hann að forysta VG geri sér vafalaust grein fyrir því að það sé þegar orðið VG býsna dýrkeypt að hlaupa undir bagga með Samfylkingunni og hleypa ESB-umsókninni í gegn þrátt fyrir andstöðu við ESB-aðild.

Ragnar telur að Evrópustefnan hafi leikið Framsóknarflokkinn illa á sínum tíma. „Nú hefur framsókn gert hreint fyrir sínum dyrum og forystan fylgir skýrri stefnu gagnvart ESB-umsókninni. Líklegt er að í næstu kosningum muni framsóknarmenn höggva drjúgt inn í raðir þeirra sem stutt hafa VG, ef svo fer fram sem horfir, meðan Össur stendur í stafni og stjórnar ESB-siglingunni, að forysta VG láti áfram reka á reiðanum og hrekist undan veðri og vindum, án þess að láta mikið til sín heyra og án þess að minna kjósendur rækilega á hver sé stefna VG. Allt bendir til þess að spurningin um ESB-aðild verði stærsta málið í næstu kosningum og hætt er við að framboð sem reyna að sigla milli skers og báru í þessu máli njóti ekki mikils trausts,“ skrifar Ragnar.

„Forystumönnum VG er því lítill greiði gerður þegar Jóhanna forsætisráðherra klappar þeim á bakið og hrósar þeim glaðhlakkalega fyrir veittan stuðning í baráttu sinni fyrir ESB-aðild. Almennir stuðningsmenn VG gerast nú langeygir eftir að sjá og heyra hvað forystan hefur nýtt að segja um afstöðu VG til þessa máls. Vonandi lætur landsfundur VG ekki sitt eftir liggja um næstu helgi að skýra stefnu VG fyrir landsmönnum á afdráttarlausan hátt,“ skrifar Ragnar Arnalds í grein sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert