Tekist á um aðskilnað ríkis og kirkju

Frá landsfundi Samfylkingarinnar.
Frá landsfundi Samfylkingarinnar.

Talsverðar umræður urðu á landsfundi Samfylkingarinnar í morgun um hvort fundurinn ætti að lýsa yfir stuðningi við aðskilnað ríkis og kirkju. Af því varð ekki en þess í stað samþykkt tillaga um að skipaður verði starfshópur sem fari yfir málið og skili niðurstöðu fyrir lok næsta árs.

Í umfjöllun málefnahóps um lýðræði og mannréttindi var ákveðið að bæta inn í ályktunartillögu um jafnrétti án landamæra, að Samfylkingin vilji ekki að hið opinbera hygli einni lífsskoðun umfram aðrar og styðji því aðskilnað ríkis og kirkju. Bar Anna Pála Sverrisdóttir, formaður málefnahópsins, þetta upp á landsfundinum.

Guðríður Arnardóttir lagði fram breytingartillögu um að þessi setning félli út úr ályktuninni og þess í stað segði, að eðlilegt sé að gengist verði fyrir grundvallarumræðu um samskipti ríkis og kirkju. Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar skipi starfshóp sem skili niðurstöðu fyrir árslok 2012.

Guðríður sagði m.a. þetta væri mál sem þyrfti djúpa málefnalega umræðu um. Kristni hefði verið ríkistrú á Íslandi í þúsund ár og samfylkingarfólk munaði ekki um að bíða í tvö ár í viðbót eftir næsta landsfundi áður en tekin yrði afstaða til þess hvort aðskilja ætti ríki og kirkju. Undir þessa skoðun tóku margir. Björk Vilhelmsdóttir sagði m.a. að verið væri að fjalla um tillöguna á sama tíma og messur væru að byrja í kirkjum landsins og kirkjurækið fólk og prestar því ekki á landsfundinum.

Á endanum var tillaga Guðríðar samþykkt með 113 atkvæðum gegn 43. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert