ASÍ: Doði blasir við í hagkerfinu

Ný hagspá hagdeildar ASÍ gerir ráð fyrir að verstu afleiðingar hrunsins séu nú að baki og framundan sé hægur bati í efnahagslífinu.

Áhyggjuefni sé hins vegar, að efnahagsbatinn framundan sé svo veikur að við blasi doði í hagkerfinu þar sem Íslendingum takist  hvorki að endurheimta fyrri lífskjör né vinna bug á atvinnuleysinu á komandi árum.

Þetta kemur meðal annars fram í nýrri spá hagdeildar ASÍ um horfur í efnahagsmálum á árunum 2011-2014. Hagdeildin spáir því að landsframleiðsla aukist hægt á næstu árum, hagvöxtur verði  2,4% á yfirstandandi ári, um 1% á næsta ári, 2,7% á árinu 2013 og um 1,5% á árinu 2014.

ASÍ gerir ráð fyrir að hagur heimilanna vænkist heldur á næstu misserum þótt víða verði áfram þröngt í búi og atvinnuleysi áfram mikið. Samkvæmt spánni dregur úr atvinnuleysi á tímabilinu en það verður enn um 5% í lok spátímans.

Útlit er fyrir litlar fjárfestingar í hagkerfinu á spátímanum. Mikil óvissa ríkir um framkvæmdir við álver í Helguvík og innanríkisráðherra hefur slegið út af borðinu allar áætlanir um að gera átak í vegamálum á Suðvesturlandi með sérstakri fjármögnun. Það er því ekki gert ráð fyrir þessum framkvæmdum í spánni. Þá valda erfiðleikar á erlendum fjármálamörkuðum aukinni óvissu varðandi fjárfestingar.

ASÍ segir, að takist að nýta þau tækifæri sem felist t.d í framkvæmdum í Helguvík og orku- og iðjuverum á Norðurlandi muni það auka hagvöxt áranna 2012-2014 um 3 prósentur sem sé ekki lítill ávinningur. Árleg verðmætasköpun yrði þá um 55 milljörðum meiri árið 2014 en ella auk þess sem það hefði veruleg jákvæð áhrifa á atvinnustigið.

Hagspá ASÍ

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert