Fimm flytja úr landi á dag

ASÍ spáir doða nema til komi stórar fjárfestingar.
ASÍ spáir doða nema til komi stórar fjárfestingar. mbl.is/Golli

Útlit er fyrir að brottflutningur frá landinu umfram aðflutta verði litlu minni í ár en á síðasta ári. Rúmlega 2000 manns fluttu brott af landinu í fyrra og á fyrstu níu mánuðum þessa árs fluttu um 1.400 manns frá landinu umfram þá sem fluttu til þess. Rúmlega 60% þeirra sem flytja burt eru á aldrinum 20-40 ára.

Frá hruni hafa yfir átta þúsund manns flutt frá landinu umfram þá sem hafa flutt til landsins. Þetta er svipaður fjöldi og samanlagður íbúafjöldi Ísafjarðar, Hafnar í Hornafirði og Norðurþings, en íbúar á þeim stöðum eru um 8.700 talsins.

Brottflutningurinn það sem af er ári jafngildir því að fimm hafi flutt frá landinu dag hvern. 850 fluttu frá landinu á þriðja fjórðungi þessa árs sem er hæsta tala fyrir einn ársfjórðung síðan árið 2009.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, alvarlegt mál ef ekki tekst að draga úr brottflutningi frá landinu. Það sé slæmt að missa ungt og vel menntað fólk úr landi. Hann segir að til að snúa þessari þróun við þurfi að auka hagvöxt hér á landi og skapa fleiri atvinnutækifæri. Kjarasamningarnir sem gerðir voru fyrr á þessu ári hafi byggst á því að auka fjárfestingar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert