Mörg heimili í vandræðum

mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Lífskjararannsókn Hagstofu Íslands 2011 sýnir að 10,2% heimila höfðu lent í vanskilum með húsnæðislán eða leigu undanfarna 12 mánuði og 12,4% heimila höfðu lent í vanskilum með önnur lán á sama tímabili.

Yfir 50% áttu erfitt með að láta enda ná saman

Árið 2011 áttu 51,5% heimila erfitt með að ná endum saman, 31,6% heimila töldu húsnæðiskostnað þunga byrði og 15,2% heimila taldi greiðslubyrði annarra lána en húsnæðislána/leigu vera þunga. Tæp 40% heimila gátu ekki mætt óvæntum útgjöldum að upphæð 160 þúsund með þeim leiðum sem þau venjulega nýta til að standa undir útgjöldum.

Þegar heildarmyndin er skoðuð var fjárhagsstaða heimilanna heldur verri árið 2011 en næstu ár á undan. Helsta undantekningin frá því er að greiðslubyrði og vanskil annarra lána en húsnæðislána hefur minnkað frá árinu 2010.

Einstæðir foreldrar standa verst

Þegar horft er til heimilisgerðar kemur í ljós að einstæðir foreldrar voru helst í fjárhagsvandræðum árið 2011. Af einstæðum foreldrum höfðu 18,3% verið í vanskilum með húsnæðislán eða leigu einhvern tíma undanfarna 12 mánuði og 28% í vanskilum með önnur lán. Rúmlega þrír fjórðu einstæðra foreldra, 78,4%, töldu erfitt að ná endum saman og 67,5% gátu ekki mætt óvæntum útgjöldum að upphæð 160 þúsund. Barnlaus heimili þar sem fleiri en einn fullorðinn búa stóðu best fjárhagslega.

Fólk á fertusaldri á í mestum erfiðleikum líkt og undanfarin ár

Þegar horft er til meðalaldurs fullorðinna heimilismanna eru heimili með meðalaldurinn 30–39 ára í mestum erfiðleikum eins og fyrri ár. Árið 2011 höfðu 14,1% slíkra heimila verið í vanskilum með húsnæðislán eða leigu einhvern tíma síðastliðnu 12 mánuði og 39,5% töldu húsnæðiskostnað þunga byrði. Tæp 20% höfðu verið í vanskilum með önnur lán en húsnæðislán og 21,7% töldu greiðslubyrði slíkra lána þunga.

Jafnframt áttu heimili 30–39 ára erfiðast með að ná endum saman en 59,4% þeirra töldu það erfitt. Heimili þar sem meðalaldur fullorðinna var lægri en 30 ár eiga erfiðast með að mæta óvæntum útgjöldum en 58,8% þeirra töldu það erfitt. Þar á eftir kemur hópurinn 30–39 ára. Almennt má segja að því hærri sem meðalaldur fullorðinna einstaklinga er á heimili, því minni hætta er á fjárhagsvanda, segir í Hagtíðinum.

 

Hagstofa Íslands hefur gefið út Hagtíðindi þar sem nánar er greint frá niðurstöðum um fjárhagsstöðu heimilanna 2004 til 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert