Rækjan tók húsið af bílnum

Rækjufarmurinn skall á húsinu og svipti því af bílnum.
Rækjufarmurinn skall á húsinu og svipti því af bílnum. Ljósmynd/Pétur Arnarsson

„Það má segja að ég hafi bara horfst í auga við ljósin á bílnum mínum,“ segir Kristmundur Ingimarsson bílstjóri sem fékk um 26 tonna rækjufarmi í bakið á sér þegar hann snarstoppaði í Bitrufirði á miðvikudagskvöld. Hann slapp ómeiddur.

Kristmundur var að flytja rækju frá Sauðárkróki til Hólmavíkur seint á miðvikudagskvöld. Skyndilega stökk kind yfir veginn og reyndi Kristmundur að forðast að keyra á hana með því að hemla. Við það skall rækjufarmurinn á bílstjórahúsinu og tók það af bílnum. Kristmundur hékk því í bílbeltum og horfði framan í ljósin á bílnum. Óhappið varð í brekku sem getur hafa átt þátt í að farmurinn fór af stað.

Kristmundur viðurkenndi að hann væri dálítið lerkaður eftir slysið, en ekki slasaður. Hann segist hafa lent í ýmsu um ævina en þetta hafi verið óvænt. Hann segir að þeir sem hafi verið lengi í þessum bransa segi að þetta eigi ekki að geta gerst. Eftir sé að rannsaka bílinn.

Bíllinn, sem er nýlegur, er stórskemmdur og því er um milljónatjón að ræða.

Björgunarsveitin Húnar var kölluð út rétt fyrir miðnætti til að bjarga farminum. Björgunarsveitarmenn höfðu snör handtök og gekk verkefnið vel miðað við aðstæður en Húnar voru að alla nóttina og fram undir hádegi daginn eftir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert