Gjaldtaka dregur úr arðbærni

Ólína Þórðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar sagði í vikunni að ríkissjóður yrði af 9 milljörðum króna á ári á meðan ekki væri tekið gjald fyrir makrílveiðar á Íslandsmiðum. Samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins telur Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, ekki útilokað að löggjöfinni verði breytt til þess að heimila gjaldtöku.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur bestu leiðina til að ná ávinningnum af veiðunum til íslensku þjóðarinnar vera fólgna í því að hér séu stundaðar arðbærar veiðar.

„Bein gjaldtaka af makrílveiðum er ekki líklegust til þess að veiðarnar verði arðbærar. Það er mín skoðun að þeir sem stunda veiðar eigi að greiða hóflegt gjald til ríkisins,“ segir Einar

Hann bendir á að eftir því sem gjaldtakan er hærri í sjávarútvegi þeim mun erfiðari verði reksturinn fyrir minni útgerðir og einstaklingsútgerðir.

„Ég vara við því að menn gangi gróflega að útgerðinni fyrir aðgangsréttinn. Mér finnst eðlilegra að við setjum upp samræmda gjaldtöku fyrir aðgangsréttinn að íslensku fiskveiðiauðlindinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert