Óttuðust að frumvarp til fjárlaga færi í uppnám

Frá landsfundi VG. Á myndinni eru Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, Sóley …
Frá landsfundi VG. Á myndinni eru Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi og til hægri er Andrea Hjálmsdóttir bæjarfulltrúi VG á Akureyri. mbl.is/Skapti

Landsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs samþykkti í gær ályktun þess efnis að ekki yrði farið í frekari niðurskurð í heilbrigðiskerfinu en ráð er fyrir gert í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012. Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins og fjármálaráðherra, og Árni Þór Sigurðsson alþingismaður komu í veg fyrir að fjárlagafrumvarpið yrði sett í uppnám.

Fyrir fundinum lá ályktun sem margir vildu túlka þannig að lagst yrði gegn því að skorið yrði niður um 1,5% til heilbrigðismála á næsta ári. Árni Þór sagði að með samþykkt hennar færi fjárlagafrumvarpið upp í loft og Steingrímur tók þannig til orða að aulalegt yrði að mæta til þings með samþykkt sem gengi þvert gegn fjárlagafrumvarpi, sem unnið hefði verið að síðan í janúar.

Í umfjöllun um landsfund VG í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að eftir að tillagan var tekin til atkvæðagreiðslu settist hópur manna niður til þess að komast að niðurstöðu sem allir gætu sæst á, en það tókst ekki og lagðar voru fram tvær breytingartillögur. Steingrímur, Árni Þór og fleiri – alls 88 landsfundarfulltrúar – greiddu atkvæði með tillögu sem ekki gat talist í andstöðu við frumvarp til fjárlaga, en alls studdu 40, þar á meðal ráðherrarnir Ögmundur Jónasson og Jón Bjarnason, hina ályktunina og vildu bersýnilega láta gott heita í niðurskurði; að hætt yrði við 1,5% niðurskurð á næsta ári sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir alþingismaður var sama sinnis og þeir Ögmundur og Jón. Álfheiður Ingadóttir alþingismaður sagði þingmenn flokksins ekki geta hlaupið frá frumvarpi til fjárlaga en vissulega ættu þeir að reyna að milda niðurskurð frá því sem þar væri lagt til.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert