Bauð 112 milljónir í Þverá

Þverá og Kjarrá eru einar bestu laxveiðiár landsins.
Þverá og Kjarrá eru einar bestu laxveiðiár landsins. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Átta tilboð bárust í leigu á Þverá og Kjarrá í Borgarfirði, en tilboð voru opnuð í dag. Hæsta tilboðið kom frá Halldóri Hafsteinssyni, Ingólfi Ásgeirssyni og Davíð Mássyni, fyrir hönd óstofnaðs félags, en þeir buðu 111,7 milljónir króna í árnar.

30 ár eru síðan leiga í Þverá og Kjarrá var boðin út, en veiðifélagið Sporður hefur verið með ána á leigu. Sporður bauð ekki í ána.

Næsthæsta tilboðið kom frá Lax-á ehf., og hljóðaði upp á 111,2 milljónir; veiðifélagið Hreggnasi ehf. var svo með þriðja hæsta tilboðið upp á kr. 108 milljónir; Vesturárdalur bauð 100,5 milljónir; Sigurður A. Þóroddsson bauð 100 milljónir; Hreggnasi var með annað tilboð upp á 92,6 milljónir; Stangaveiðifélag Reykjavíkur bauð 88,1 milljón og lægsta tilboðið kom frá Tail ehf. og hljóðaði það upp á 88 milljónir.

Kristján F. Axelsson, formaður stjórnar Veiðifélags Þverár, sagði að eftir væri að fara yfir tilboðin. Gert væri ráð fyrir að leigjandi ánna greiddi fyrir netaleigu í Hvítá og veiðivörslu og eftir væri að fara yfir hvort það væri inni í þessum tilboðum. Þau gætu því hækkað eða lækkað eftir því hvaða forsendur lægju að baki. Gert er ráð fyrir að samið verði til fimm ára.

Kristján segir stefnt að því að ganga frá samningi við nýjan leigjanda fyrir áramót. Eitt ár er eftir af samningnum við Sporð og hann verður því með árnar næsta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert