Ótrúverðugar forsendur

Reykjavík og ráðhúsið.
Reykjavík og ráðhúsið. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hart var tekist á um fjárhagsáætlun velferðarsviðs Reykjavíkur á fundi velferðarráðs fyrir helgi. Fulltrúar minnihlutans gagnrýndu um margt vinnu við áætlunina en fulltrúar meirihlutans sögðu áætlunina bæði innihalda góðar fréttir og slæmar.

Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði lét bóka að niðurskurður og gjaldskrárhækkanir virðast bitna helst á öldruðum en meðal annars standi til að hækka gjaldskrár til þeirra vegna akstursþjónustu, þrifa, veitinga, félagsstarfs og íbúða aldraðra. Þá sé ekki gert ráð fyrir hækkun fjárhagsaðstoðar þrátt fyrir að fyrir liggi tillaga þess efnis og verðbólga hafi verið mikil á árinu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sögðu heildarsýn vanta, stórum spurningum væri ósvarað og forsendur áætlunarinnar væru ekki trúverðugar. „Meirihlutinn hefur ekki horft til þess að fyrir utan þær álögur sem lagðar hafa verið á íbúa hefur kaupmáttur lækkað verulega, fjölskyldur eru enn í miklum skuldakröggum og verðbólga í hámarki og um leið hefur meirihlutinn seilst í vasa borgarbúa af of miklu offorsi.“

Þá bentu þeir á að í áætluninni væri gert ráð fyrir að einkaneysla, samneysla og verg landsframleiðsla ykist og að atvinnuleysi minnkaði. Þá væri litið til talna um atvinnuleysi en í þeirri tölu væri ekki sá hópur sem er atvinnulaus en í raun skjólstæðingar borgarinnar, þar sem hann á ekki rétt á atvinnuleysisbótum. „Þetta er varhugavert og hefur verið gagnrýnt enda sjá aðilar vinnumarkaðarins fram á doða í atvinnulífinu, þungt hljóð er í íbúum sem hafa þurft að draga klafann sem stjórnvöld hafa ofhlaðið, skilyrði fyrir fjárfestingum eru lítil og of bratt farið í hagvaxtarspá.“

Góðar fréttir og slæmar

Fulltrúar meirihlutans í Samfylkingunni og Besta flokknum viðurkenndu að slæmar fréttir mætti finna í fjárhagsáætluninni. Hins vegar væru þar einnig góðar fréttir. „Ekki er gerð almenn hagræðingarkrafa á sviðið og því ekki hægt að tala um niðurskurð. Velferðarsvið fær 204 milljónir í viðbætur til að bæta þjónustu við börn í vanda, til að virkja fólk sem er á fjárhagsaðstoð og til að mæta auknu álagi á þjónustumiðstöðvar borgarinnar sem takast á við vanda borgarbúa með þeim á margvíslegan hátt.“

Þrátt fyrir þetta þurfi að forgangsraða og hagræða fyrir nauðsynlegum viðbótum í lögbundinni þjónustu, enda þurfi fleiri á heimaþjónustu að halda, ferðaþjónustu og matarþjónustu þar sem fólk dvelur lengur heima og er útskrifað fyrr af sjúkrastofnunum. Því þurfi að hækka gjaldskrár.

Þrátt fyrir allt telja fulltrúar meirihlutans að fjárhagsáætlunin sé eins sanngjörn og mögulegt er og mæti brýnustu þörfinni fyrir viðbótarþjónustu við börn, ungt fólk og þá sem þurfa aðstoð í daglegu lífi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert