Hreinsa upp rottueitur

Rottugangur hefur minnkað um meira en helming vegna aðgerða Reykjavíkurborgar.
Rottugangur hefur minnkað um meira en helming vegna aðgerða Reykjavíkurborgar. Reuters

Starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa að undanförnu unnið að því hreinsa upp rottueitur sem fyrir misgáning fór í regnvatnsbrunna í Fossvogsdal í sumar. Ekkert nýtt eitur hefur fundist í þeim í nokkra daga þrátt fyrir talsverðar rigningar. Þetta kemur fram á vefsvæði Reykjavíkurborgar.

Tvær settjarnir sem rottueitur hefur fundist í eru vaktaðar þrisvar á dag og hefur ekkert nýtt eitur fundist í þeim í nokkra daga þrátt fyrir talsverðar rigningar. Hefur net verið sett fyrir frárennnslisrör í aðra þeirra til að hindra að eitur berist í settjörnina. Mengun vatns í lækjunum er óveruleg þar sem eitrið er steypt í vax. Það sem losnar úr vaxinu þynnist og brotnar niður á skömmum tíma.

Um er að ræða vaxstauka með fóðurkorni og vægu eitri sem er fyrst og fremst skaðlegt nagdýrum. Stærri dýrum og mönnum stafar lítil hætta af eitrinu nema þeir neyti þess í miklu magni. Vaxstaukarnir sökkva til botns í tjörnunum og því ólíklegt að gæludýr komist í þá. Kettir sækja ekki í vaxstaukana en ef svo ólíklega vill til að hundar éti nokkuð af staukunum og veikist má gefa þeim móteitur, K1 vítamín.

Meindýraeyðar Reykjavíkurborgar eitra reglulega fyrir rottum í skólpbrunnum borgarinnar til að halda þessum óæskilegu nagdýrum í skefjum. Hefur rottugangur minnkað um meira en helming vegna aðgerðanna. Reykjavíkurborg hefur endurskoðað og bætt verklagsreglur sínar í þessum efnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert