Veiktust eftir sprautu

Bólusetning. Mynd úr myndasafni.
Bólusetning. Mynd úr myndasafni. Ómar Óskarsson

Nokkrar stúlkur í 8. bekk Grunnskóla Húnaþings vestra fengu viðbrögð, sem fyrst voru talin vera ofnæmisviðbrögð, í morgun þegar þær fengu bólusetningu gegn leghálskrabbameini HPV. Sjúkrabílar voru kallaðir á staðinn og var ein stúlknanna flutt til nánari skoðunar á Landspítala.

„Þetta voru fjórar stúlkur og fljótlega eftir bólusetninguna hitnaði þeim í andliti, þær roðnuðu og var kalt á fótunum og þeim leið ekki vel,“ segir Haraldur Briem sóttvarnarlæknir hjá Landlæknisembættinu.

„En þær eru í góðu standi núna, líka sú sem fór suður til skoðunar.“ Haraldur segir að ekki hafi verið um ofnæmisviðbrögð að ræða, ýmsar aukaverkanir væru þekktar af bólusetningum eins og til dæmis yfirlið og ógleði, ekki síst á unglingsaldri.

„Við erum búin að bólusetja um 5000 stúlkur á öllu landinu og það hefur ekkert komið upp á sem bendir til þess að bólusetningin geti verið ofnæmisvaldandi,“ segir Haraldur.

Nokkur hræðsla mun hafa gripið um sig á meðal nemenda skólans og var ákveðið að bólusetja ekki stúlkur í 7. bekk fyrr en að höfðu samráði við landlækni. Nú liggur fyrir að bólusetningum verði haldið áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert