Aldrei betra að semja við ESB

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson. Reuters

Utanríkisráðherra telur það ranga ályktun að draga eigi úr vinnu við aðildarviðræður vegna ástandsins í Evrópu. Þvert á móti hafi aldrei verið betri tími til að semja en nú, hvað varðar samningatækni, enda sé það pólitískt heilbrigðisvottorð fyrir ESB að ríki vilji þangað inn.

Ráðherrann lét orð sín falla við sérstaka umræðu um stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagði Evrópu brenna og evrusamstarfið vera að liðast í sundur. Því skildi hún ekki vegferð ríkisstjórnarinnar og með ólíkindum að haldið væri áfram með þetta mál.

Vigdís sagði að á meðan málið ætti hug ríkisstjórnarinnar allan væru ráðuneytin á hliðinni og ekki tækist að koma brýnum málum áfram. Hún benti á hversu fá stjórnarfrumvörp hefðu komið fram og sagði það í raun hneyksli hversu fá þau væru.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagðist telja að gangurinn í viðræðunum væri góður. Hægt ætti að vera búið að loka tuttugu köflum af 33 í júní á næsta ári. Hann sagði það hafa komið sér á óvart í viðræðunum hversu mikinn skilning ESB sýndi Íslendingum og hversu lausnarmiðað viðreðurferlið væri.  Þá spurði hann hvers vegna andstæðingar aðildar væru svona hræddir við að klára ferlið ef þeir teldu svo öruggt að samningurinn yrði felldur.

Þá hafnaði Össur algjörlega að lítið hefði verið um upplýsingagjöf af hans hálfu. Hann sagðist ávallt vera boðinn og búinn að koma til fundar við þingið eða nefndir þess og skýra gang mála. Og ekki aðeins hann heldur einnig þeir sem sinntu samningunum fyrir hönd íslenska ríkisins. Þá benti hann Vigdísi á að hvert einasta gagn sem málið varðaði væri opið á vef utanríkisráðuneytisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert