Skemmtigarðurinn opnaður á morgun

Stærsta tækið í Skemmtigarðinum í Smáralind nefnist Sleggjan.
Stærsta tækið í Skemmtigarðinum í Smáralind nefnist Sleggjan.

Búist er við miklum fjölda í Smáralind um helgina en á morgun mun Skemmtigarðurinn í Smáralindinni verða opnaður formlega. Hann er um 2.000 fermetrar á tveimur hæðum og að sögn framkvæmdastjórans hefur mikið verið í hann lagt og verður boðið upp á afþreyingu fyrir alla aldurshópa.

Garðurinn er hannaður af alþjóðlega hönnunarfyrirtækinu KCC sem meðal annars hannaði skemmtigarð í verslunarmiðstöð í Moskvu, sem var valinn sá besti í heimi 2010. Undirbúningur vegna verkefnisins hófst fyrir um þremur árum, en framkvæmdir byrjuðu í sumar. Að sögn Eyþórs Guðjónssonar, framkvæmdastjóra Skemmtigarðsins, var skemmtigarðurinn í Moskvu fyrirmynd garðsins í Smáralind. Mikið hafi verið lagt í hann og í boði verði afþreying fyrir alla aldurshópa.

Í tilkynningu segir að Skemmtigarðurinn sé hugsaður þannig að gengið er inn í frumskóg og þá blasa við alls konar dýr sem flest eru af erlendum uppruna en fljúgandi lundi af stærstu gerð fær einnig heiðurssess. Fyrirtæki í Kína, sem m.a. framleiðir leikmyndir fyrir Walt Disney, vann að gerð leikmyndarinnar og dýranna en kanadísku listmálararnir David og Allan Thomas komu til landsins og máluðu stærstu leikmynd sem máluð hefur verið hér á landi, en hún þekur um 300 fermetra.

Klessubílarnir verða á sínum stað, fallturn og fleira. Eyþór segir að í Skemmtigarðinum verði öll nýjustu og vinsælustu tækin sem eru misjöfn að stærð og gerð, frá litlum leiktækjum upp í svonefnda Sleggju sem er stærsta tækið í garðinum. Tækið sé sannkölluð rússíbanareið þar sem gestum Skemmtigarðsins er snúið í hringi í 360 gráða sveiflu upp í um 13 metra hæð. Um sé að ræða nýja gerð afþreyingar sem njóti mikilla vinsælda í skemmtigörðum víða um heim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert