Vörslusvipt fyrir mistök

 „Ég er alveg foxillur,“ segir Guðjón Guðjónsson en Lýsing framkvæmdi vörslusviptingu á bíl eiginkonu hans fyrir mistök í morgun.

Hann segir Lýsingu ekki vilja gera neitt til að bæta hjónunum upp vandræðin sem sköpuðust í morgun nema að bjóðast til að skila bílnum aftur heim til þeirra. Guðjón vandar fyrirtækinu ekki kveðjurnar.

„Þegar við komum út í morgun var bíll konunnar farinn. Hún sagði að hún hefði skuldað Lýsingu en væri búin að borga allt upp og stæði nú í skilum. Það er margbúið að segja að þessar vörslusviptingar séu ólöglegar,“ segir Guðjón og bætir við að það hafi kostað talsvert vesen í morgun að ræða við Lýsingu og hann komst seint til vinnu.

„Ég talaði strax við þá hjá Lýsingu og þar var staðfest að konan mín var búin að gera allt upp og skuldaði ekkert. Þetta hafi einfaldlega verið mistök í samskiptum innanhúss hjá þeim,“ segir hann. „Þetta æsti mig mikið upp í morgun, ég er alveg foxillur og það eina sem Lýsing segir að þetta hafi verið mistök og þeir biðjist afsökunar en þeir ætla ekkert að gera til að bæta okkur þetta upp.“

Starfsmenn Lýsingar hafi sagt við Guðjón að þeir hefðu ekki völd til að gera neitt fyrir þau hjónin. „Það eina sem Lýsing gerði var að bjóðast til að skila okkur bílnum,“ segir Guðjón og bætir við að vinnubrögð fyrirtækisins séu til skammar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert