Tveir og hálfur árgangur fluttur burt

Aðeins tólf sinnum á síðustu 50 árum hafa fleiri íslenskir …
Aðeins tólf sinnum á síðustu 50 árum hafa fleiri íslenskir ríkisborgarar flutt til landsins en frá því, 38 ár fækkaði þeim. mbl.is/Hilmar Bragi

Á árunum 2001-2010 fluttu 7.500 fleiri íslenskir ríkisborgarar frá landinu en til þess. Fækkunin samsvarar tveimur og hálfum árgangi.

Aðflutningur erlendra ríkisborgara hefur vegið upp á móti brottflutningnum en á árunum 2001-2010 fluttu 17.030 erlendir ríkisborgarar til landsins. Athygli vekur að síðastliðna hálfa öld hafa mun fleiri íslenskir ríkisborgarar flutt brott af landinu en til þess. Þetta kemur fram á vef Samtaka atvinnulífsins.

Flestir fluttu brott árið 2009

Brottflutningur Íslendinga hefur aldrei verið meiri en árið 2009 en þá voru þeir tæplega 2.500 fleiri en aðfluttir. Brottflutningur ársins 2010 kemur næst í röðinni með rúmlega 1.700 umfram aðflutta. Samtals fluttu 4.646 fleiri íslenskir ríkisborgarar frá landinu en til þess á árunum 2008-2010. Það svarar til 1,5% íbúafjöldans.

Flestir á aldrinum 25-54 ára

Brottflutningur íslenskra ríkisborgara umfram aðflutta á síðustu árum hefur verið hlut­fallslega mestur í aldurshópnum 25-54 ára. Árið 2010 voru tæplega 70% brottfluttra umfram aðflutta á þessu aldursbili og 57% árið 2009. Það felur í sér að stór skörð hafa myndast í vinnuafl landsmanna.

Á tímabilinu 1961-2010 voru brottfluttir Íslendingar umfram aðflutta 21.375 talsins sem nemur 8,7% af meðalíbúafjölda landsins á tímabilinu en flestir fóru síðasta áratuginn. Brottflutningurinn hefur jafnast með aðflutningi erlendra ríkisborgara undanfarna þrjá áratugi.

Aðeins tólf sinnum á síðustu 50 árum hafa fleiri íslenskir ríkisborgarar flutt til landsins en frá því, 38 ár fækkaði þeim. Flutningsjöfnuður Íslendinga hefur aðeins einu sinni verið jákvæður á síðustu 10 árum. Brottflutningur Íslendinga hefur yfirleitt aukist verulega í kjölfar mikils falls kaupmáttar launa. Sex ár eða árabil skera sig úr hvað þetta varðar, þ.e. árið 1970, 1976-1977, 1984-1986, 1989, 1995 og 2009.

Á þessum tímum hafði kaupmáttur launa fallið nýlega um meira en 10%. Brottflutninginn á þessum árum má því að miklu leyti rekja til minni kaupmáttar en hann féll um 13% árin 1968-1969, 12% árið 1975, 17% árið 1983, 15% á tímabilinu 1988-1994 og 11% árin 2008-2009, segir á vef SA.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert