Öðrum leyft að fjárfesta hér

Þorskur á markaði í Skotlandi.
Þorskur á markaði í Skotlandi. Reuters

Kolbeinn Árnason, formaður samningshóps um sjávarútvegsmál við Evrópusambandið, segir að ljóst sé að ef Ísland gangi í Evrópusambandið verði borgurum annarra ríkja ESB heimilt að fjárfesta í sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi en hægt er að krefjast þess að eigendur útgerða hafi efnahagsleg tengsl við það ríki sem úthlutar þeim aflaheimildum.

Eins er ljóst að Ísland myndi glata samningsumboðinu við þriðja ríki og alþjóðastofnanir þar sem Evrópusambandið færi með það umboð fyrir hönd Íslands, að sögn Kolbeins, en hann fjallaði um aðildarviðræðurnar við ESB á fundi Viðskiptaráðs Íslands í morgun. Hann segir að viðræður standi enn yfir og það sé stefnan hjá ESB að fela aðildarríkjunum meira sjálfstæði í ákvarðanatöku.

Kolbeinn segir að markmið Íslands í sjávarútvegsmálum séu svipuð þeim sem uppi eru hjá Evrópusambandinu, að tryggja hag sjávarbyggða, tryggja hag neytenda, við ætlum að veiða sem mest og við ætlum að vernda auðlindina.

Hann segir að munurinn á milli Íslands og ESB sé sá að sjávarútvegurinn á Íslandi er atvinnugrein sem stendur undir sér sjálf og ekki bara það heldur stendur hann undir stórum hluta íslensks efnahagslífs. „Því höldum við því fram fullum fetum að við höfum náð miklu betri árangri heldur en ESB í sjávarútvegsmálum," segir Kolbeinn og því sé óþarfi að laga íslenskan sjávarútveg að verra kerfi heldur en við búum við. Hann segir að Íslendingar hafi kannski ekki náð neinni fullkomnun á þessu sviði en það sé alveg ljóst að íslenska kerfið er betra heldur en kerfið hjá ESB.

Að sögn Kolbeins hefur ESB meðal annars horft til þess hvernig afstaða Íslendinga sé varðandi brottkast og stefnan sé að fara í sömu átt og Íslendingar, að banna brottkastið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert