„Óheft mannorðsmorð“

Gunnar Þ. Andersen.
Gunnar Þ. Andersen. mbl.is/Árni Sæberg

Gunnar Þ. Andersen, forstjóri FME, segir í yfirlýsingu, þar sem gerðar eru athugasemdir við það sem fram kom um hans störf í Kastljósi í gær, að það líti út fyrir að þegar sé hafin herferð til að gera einstaka embættismenn og stofnanir ótrúverðugar. RÚV standi yfir óheftum mannorðsmorðum.

Gunnar segist ætla að halda áfram að stjórna frumrannsóknum FME sem tengjast bankahruninu.

Í Kastljósi í gær kom fram hörð gagnrýni á ráðningu Gunnars í starf forstjóra vegna starfa hans fyrir aflandsfélög Landsbankans er hann vann hjá bankanum. Stjórn Fjármálaeftirlitsins kom saman í dag og ræddi mál Gunnars.

„Ekki þarf að koma á óvart að nú þegar styttist í útgáfu fyrstu ákæruskjala í kjölfar bankahrunsins skuli gæta titrings í röðum þeirra sem þar eiga hlut að máli. Því hafði verið spáð. Þannig lítur út fyrir að þegar sé hafin herferð til þess að gera einstaka embættismenn og stofnanir þeirra ótrúverðugar og reyna jafnvel með þeim hætti að ónýta rannsóknir,“ segir í yfirlýsingu frá Gunnari vegna þáttarins í gær.

„Það er hins vegar athyglisvert að Ríkissjónvarpið skuli láta eftir sviðið til óheftra mannorðsmorða, sérstaklega í ljósi þess að ekkert nýtt var að finna í umræddri umfjöllun. Hæfi undirritaðs hefur þegar verið skoðað ofan í kjölinn og voru engar athugasemdir gerðar við það. Það var aðallega af þeirri ástæðu sem undirritaður sá ekki ástæðu til þess að mæta í þennan Kastljósþátt enda treysti ég alla jafna hlutlægri og hlutlausri umfjöllun útvarps allra landsmanna. Því var svo sannarlega ekki að heilsa að þessu sinni,“ segir ennfremur.

Gunnar segir að kjarni umfjöllunarinnar hafi virst vera að sá efasemdafræjum vegna stjórnarsetu sinnar, fyrir u.þ.b. áratug, á vegum Landsbanka Íslands, löngu fyrir einkavæðingu, í tveimur nafngreindum aflandsfélögum.

„Sannleikurinn er sá að ekkert refsinæmt liggur fyrir, hvorki af hálfu félaganna né vegna stjórnarsetu undirritaðs í þeim. Sigurður G. Guðjónsson lögmaður, sem lét gamminn geisa á sjónvarpsskjánum, fær engu um það breytt. Aflandsfélög sem slík eru og hafa til þessa verið fyllilega lögleg og eru þau talsvert notuð af virtum fjármálastofnunum um allan heim. Það veltur svo á starfsemi og starfsháttum félaganna hvort eitthvað saknæmt á sér stað. Ekkert slíkt liggur fyrir í máli þessu og má því segja að sjálfan „glæpinn“ vanti alveg,“ segir Gunnar.

Kastljós stendur við umfjöllunina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert