Rétt viðbrögð við bankahruni

Geir H. Haarde í ræðustól í Laugardalshöll.
Geir H. Haarde í ræðustól í Laugardalshöll. mbl.is/Árni Sæberg

Geir H. Haarde, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á landsfundi flokksins í dag, að almennt væri litið svo á að viðbrögð ríkisstjórnar hans við bankahruninu hefðu verið hárrétt.

En nú vildi meirihluti Alþingis að hann tæki út refsingu á Litla-Hrauni.

Geir sagði, að á ráðstefnu í Hörpu hefði aðstoðarforstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagt um stöðuna árið 2008, að hún vildi óska þess að sjóðurinn hefði varað íslensk stjórnvöld fyrr við þeirri áhættu sem fólst í því hvað bankarnir væru orðnir stórir. „Já, það hefði verið hjálplegt," sagði Geir.

Hann sagðist sannfærður um, að hægt hefði verið með öflugri sókn að hægt hefði verið að snúa ástandinu  við á einu ári í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn en það hefði ríkisstjórninni mistekist og nú hefðu tvö ár farið til spillis. Þess vegna væri mikilvægasta verkefnið í stjórnmálunum á Íslandi að koma núverandi ríkisstjórn frá.

„Burt með hana," sagði Geir.

Hann sagði, að það hefði ekki verið röng stefna hjá Sjálfstæðisflokknum að búa til frjálst markaðskerfi hér á landi. Sú stefna hefði ekki verið ástæðan fyrir hruni bankanna. En frjálst flæði fjármagns hefði borið í sér hættur sem menn sáu ekki fyrir. Og síðan væru alltaf til staðar menn sem væru tilbúnir til að fara kringum reglur. Niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis hefði verið, að ábyrgðarleysi bankanna hefði orðið þeim að falli.

Tugmilljóna málskostnaður

Geir fjallaði um landsdómsmálið gegn sér og sagði að það væri lítilmannleg aðför en ekki myndi takast að koma sér á kné.

Sagði Geir að sakarkostnaður næmi þegar tugum milljóna. Þá væri ótalinn kostnaður við dómstólinn sjálfan og ljóst að kostnaður við málið færi yfir 200 milljónir króna.

Hann sagði, að landsdómsmálið væri einsdæmi á Íslandi. Þótt oft hafi verið tekist á í íslenskum stjórnmálum hefði engum dottið í hug fyrr, að gera upp pólitísk deilumál í dómsmálum.

Aðalmeðferð hæfist væntanlega í mars og búast mætti við að dómur falli í apríl. Sagði Geir að þá hefði málið tekið tvö og hálft ár í hans lífi.

Geir sagðist viss um, að margir í þeim 33 þingmanna hópi, sem greiddu atkvæði með ákæru á Alþingi, hefðu ekki vitað um hvað málið snérist og hvaða refsingu þeir voru að biðja um.

Atli Gíslason hefði haft góð orð um að hætta á Alþingi. Það mættu fleiri gera.

Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert