Stjórnin sér háa skatta í hillingum

Hanna Birna Kristjánsdóttir flytur framboðsræðu á landsfundi sjálfstæðismanna í dag.
Hanna Birna Kristjánsdóttir flytur framboðsræðu á landsfundi sjálfstæðismanna í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi og frambjóðandi í formannskjöri Sjálfstæðisflokksins, sagði á landsfundi flokksins í dag, að ríkisstjórnin sæi háa skatta og ríkisafskipti í hillingum. Stjórnin byggði á löngu úreltum hugmyndum úr gömlum sænskum plöggum.

„Ríkisstjórnin virðist horfa til Svíþjóðar með augum Georgs Bjarnfreðarsonar (...)   og kýs að
sjá háa skatta og mikil ríkisafskipti í hillingum í bland  við ímyndaða veröld fjallagrasa og samyrkjubúa. Ríkisstjórnin byggir starf sitt þannig á úreltum hugmyndum í gömlu sænsku plöggunum sem kannski var dreift í sellunum þegar Jóhanna og Steingrímur voru að hefja störf í stjórnmálum, svona um það bil um miðja síðustu öld," sagði Hanna Birna.

Hún sagði, að þegar tekist væri á við erfiðleika skipti staðfestan mestu. Hún sagðist vilja færa þær áherslur inn í landsmálin, sem hún beitti sér fyrir þegar hún var borgarstjóri í Reykjavík.

Hanna Birna sagðist taka þeirri áskorun fagnandi að vera í stjórnmálum. Hún sagði að það væri röng fullyrðing, sem komið hefði fram, að það gengi ekki að formaður flokksins væri ekki þingmaður. Nú væri tækifæri fyrir nýjan formann að efla samskiptin við flokksfólk. Það lægi í augum uppi, að hún myndi sem formaður Sjálfstæðisflokksins sitja þingflokksfundi hans og bjóða sig síðan fram í næstu alþingiskosningum. En formaður Sjálfstæðisflokksins ætti að vera formaður flokksins alls, ekki bara þingflokksins.

„Ég vildi ekki hunsa hvatningu ykkar og ákall um breytingar," sagði Hanna Birna um framboð sitt. „Ég tók ykkar áskorun og vona að sem flest ykkar nýtið tækifærið og takið þessari áskorun með mér. Þetta formannskjör snýst einfaldlega um það, hver sé líklegastur til  að styrkja mest stöðu Sjálfstæðisflokksins. Ég vil ekki sundra til að sigra. Ég vil samhentan stóran flokk sem vinnur næstu kosningar og leiðir næstu ríkisstjórn."

Hanna Birna sagði, að 15 mánuðum frá síðasta landsfundi væri flokkurinn  á nákvæmlega sama stað í skoðanakönnunum og í ágúst 2010. Á sama tíma og hér væri ríkisstjórn sem njóti hvorki trausts né fylgis sæti Sjálfstæðisflokkurinn pikkfastur. „Ég hef þann metnað fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins að við setjum markið hærra," sagði Hanna Birna.

Þá sagði hún, að í stjórnarmyndunarviðræðum muni Sjálfstæðisflokkurinn ekki semja um gælumál annarra flokka, sem ekki njóti meirihlutastuðnings innan Sjálfstæðisflokksins. Það verði því ekki samið um aðdáun Samfylkingarinnar á stjórnarháttum í Brussel eða skattahækkanir Vinstri grænna.

Í ræðu sinni fjallaði Hanna Birna m.a. um Icesave og sagði að ríkisstjórnin hefði ítrekað reynt að skuldbinda íslenska skattgreiðendur vegna Icesave-reikninganna.

„Þetta er prinsipmál,  sem snýst um það eitt að íslenskur almenningur á aldrei, og ég endurtek aldrei, að sitja uppi með reikninga sem fyrirtæki skilja eftir sig þegar allt fer á  versta veg."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert