Loka ef skattur verður lagður á

Einar Þorsteinsson, forstjóri járnblendiverksmiðjunnar Elkem Ísland á Grundartanga, hefur sent öllum þingmönnum, bæjarfulltrúum og formanni Verkalýðsfélags Akraness, póst þar sem skýrt er kveðið á um að verði hinn nýi kolefnisskattur að veruleika þá muni það þýða endalok starfsemi verksmiðjunnar.

Þetta kemur fram á vef Verkalýðsfélags Akraness. Er þar vitnað í bréf Einars þar sem m.a. stendur:

„Miðað við framleiðsluáætlanir Elkem Ísland ehf. mun fyrirhuguð álagning kolefnisgjalds sem lögð verður á félagið verða u.þ.b. 430.000.000 kr. árið 2013, 645.000.000 kr. árið 2014 og 860.000.000 kr. árið 2015. Fyrirhugað kolefnisgjald verður því meira en tvöfalt hærri upphæð en meðalhagnaður fyrirtækisins undanfarin tíu ár. Má því vera ljóst að allar forsendur fyrir frekari rekstri Elkem Ísland ehf. í framtíðinni verða gerðar að engu, en fyrirtækið hefur verið ein af meginstoðum atvinnulífs á Vesturlandi í rúmlega 30 ár.“

Á morgun mun formaður Verkalýðsfélags Akraness ásamt oddvitum stjórnmálaflokka í bæjarstjórn eiga fund með þingmönnum Norðvestur-kjördæmis vegna þessa máls og hefst fundurinn kl. 12. Einnig munu málefni Sementsverksmiðjunnar verða til umfjöllunar sem og sá gríðarlegi niðurskurður sem Heilbrigðisstofnun Vesturlands hefur mátt þola að undanförnu, segir á vef Verkalýðsfélags Akraness.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert