Ég verð að komast til Íslands

Úr gjörningi Ragnars Kjartanssonar.
Úr gjörningi Ragnars Kjartanssonar.

„Það eina sem ég hugsaði um, og hugsa enn um, er að ég verð að komast til Íslands," segir gagnrýnandi tímaritsins New York Magazine um Bliss, gjörning Ragnars Kjartanssonar í Abrons Art Center í borginni um helgina.

Þar fluttu Ragnar og  úrvalslið íslenskra söngvara, með Kristján Jóhannsson fremstan í flokki,  lokakafla óperu Mozarts, Brúðkaup Fígarós, í 12 klukkustundir við undirleik 14 manna hljómsveitar. Lokakaflinn var endurtekinn í sífellu, ekkert hlé var á flutningnum og söngvarar og hljóðfæraleikarar fengu mat og drykk á sviðið og fengu að skjótast einn og einn á snyrtinguna.

Jerry Saltz, gagnrýnandi tímaritsins, lýsir því þegar hann fylgdist með fyrstu tveimur tímunum ásamt konu sinni, fór og kom síðan aftur þegar gjörningnum var að ljúka.

„Þegar miðnætti nálgaðist fríkaði hinn skynsami Ameríkani í mér út. Maður fann að margir áhorfendur töldu niður mínúturnar og væntu mikilfenglegra loka. Síðan tók íslenski tíminn við. Alls óvænt, um klukkan 11.50, leiddi stjórnandinn hljómsveitina í drynjandi og ólgandi stigmögnun, stóð á stólnum, veifaði handleggjunum og hvatti söngvarana til að sleppa fram af sér beislinu. Í lok aríunnar, tíu mínútum fyrir miðnætti, lauk hann gjörningnum. Allir slepptu sér, fögnuðu óspart, lyftu glösum, skáluðu, hrópuðu. Fólk kom hlaupandi inn úr anddyrinu og af salernum, undrandi yfir að hafa misst af lokunum.  Baksviðssamkvæmi fylgdi í kjölfarið fyrir alla sem vildu. Þar var grísasteik, vínið flæddi. Þegar ég fór um klukkan 2 um morguninn hafði hópur söngvara - þar á meðal konur úr hinni frábæru íslensku hljómsveit Múm - tekið höndum saman við Ragnar og aðalsöngvarann og sungu Schubert hástöfum. Það eina sem ég hugsaði um, og hugsa enn um, er að ég verð að komast til Íslands," skrifar Saltz.

Grein New York Magazine

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert