Fjármálaráðherra ekki starfi sínu vaxinn

Frá Alþingi. Jón Gunnarsson fyrir miðri mynd.
Frá Alþingi. Jón Gunnarsson fyrir miðri mynd. mbl.is/Golli

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að fram hafi komið á fundi atvinnuveganefndar Alþingis í morgun að ekkert verði af fyrirhuguðum verkefnum kísilfyrirtækja á Norðurlandi og á Suðurnesjum haldi stjórnvöld því til streitu að hækka kolefnisskatt.

Í morgun var haldinn fundur í atvinnuveganefnd Alþingis þar sem fjallað var um áhrif kolefnisskattsins á kísiliðnað.

Jón segir ennfremur að menn hafi velt því upp á fundinum hvort um sé að ræða einhverskonar misskilning hjá fjármálaráðuneytinu í nálgun sinni á málinu. Sjálfur telur Jón að svo sé ekki. Jón bætir við að ef raunverulega sé um að ræða misskilning af hálfu fjármálaráðherra þá sé hann hreinlega ekki starfi sínu vaxinn og ætti að láta af embætti.

„Við vorum að funda með fulltrúum kísilfyrirtækjanna sem eru að huga að starfsemi fyrir norðan og einnig á Suðurnesjum, og honum Einari [Þorsteinssyni forstjóra] hjá Elkem, það kemur fram hjá þeim að þetta mál er gríðarlega alvarlegt. Þeir segja í fyrsta lagi að þá verði ekkert af þessum verkefnum sem eru í pípunum ef þessu [kolefnisskattinum] verður haldið til streitu,“ segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um fundinn í morgun.

Að sögn Jóns er málið mjög blóðugt, sérstaklega þegar litið er til þess að verkefnið á Suðurnesjum er komið mjög langt á veg, þar á bæ séu menn tilbúnir með útboðsgögn bæði fyrir hönnun og framkvæmdir sem átti að senda út í þessari viku, en nú sé búið að slá því öllu á frest. Jafnframt líti allt út fyrir að Elkem á Grundartanga muni hægt og rólega draga úr sinni starfsemi og á endanum leggja upp laupana.

„Það kemur fram hjá öllum þessum aðilum að bara með því að setja þessar hugmyndir fram sé búið að skaða orðspor landsins gríðarlega og að trúverðugleiki okkar sem lands til þess að fara í fjárfestingar í svona orkufreknum iðnaði sé í raun og veru farinn út um gluggann,“ segir Jón sem bætir við að sumir hafi talað um að Ísland sé ekki bara að skjóta sig í fótinn með þessum hugmyndum heldur í raun og veru að skjóta hann af sér.

„Í þessum kísilverksmiðjum erum við að tala auðvitað um mjög umhverfisvænan iðnað, í mörgum samanburði, og við erum að tala um iðnað sem er hugsaður til þess að framleiða hráefni, m.a. fyrir sólarsellur og slíkt sem er nú aldeilis hlutgervingur grænnar orkunýtingar,“ segir Jón.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert