Verkfalli sjómanna frestað

Hafrannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson við bryggju.
Hafrannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson við bryggju. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Sjómenn á skipum Hafrannsóknastofnunar frestuðu verkfalli í dag, en þeir hafa verið í verkfall frá 28. september. Birgir Hólm Björgvinsson, hjá Sjómannafélagi Íslands, segir að ekki sé búið að undirrita nýjan kjarasamning en hann vonast eftir að það verði gert á næstu dögum.

Sjómannafélagið aflýsti verkfalli til 11. desember. Birgir segir að það liggi fyrir drög að nýjum samningi, en menn þurfi nokkra daga til að fara betur yfir einstök atriði. Fyrst búið hafi verið að ná samkomulagi um meginatriðin hafi ekki verið ástæða til að halda mönnum lengur í verkfalli.

Birgir vill ekki tjá sig efnislega um þau samningsdrög sem liggja á borðinu, en hann segir þó að hann sé sæmilega sáttur.

15-16 sjómenn voru í verkfalli, en þeir munu mæta til vinnu á morgun og reiknað er með að rannsóknarskipin Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson fari til loðnuleitar á mánudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert