„Tvísköttun á kolefnislosun“

Álverið í Straumsvík
Álverið í Straumsvík Þorvaldur Örn Kristmundsson

Samtök álframleiðenda á Íslandi lýsa undrun sinni á ummælum Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, í fréttum um kolefnisskatta og íslenskan iðnað.

Í tilkynningu frá samtökunum er vitnað í orð ráðherra í fréttum Ríkissjónvarpsins um að aldrei hefði verið samið um að almennar skattahækkanir kæmu ekki við þessi fyrirtæki, auk þess sem það væri ekki sanngjarnt að þessar atvinnugreinar greiddu ekki kolefnisgjald þegar aðrar greinar gerðu það.

„Hér hlýtur að vera um misskilning að ræða. Íslenskur áliðnaður fellur nú þegar undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir, ETS, en því kerfi er ætlað að  skapa hagræna hvata fyrir fyrirtæki til að draga úr losun. Raunar er það kerfi einsdæmi í heiminum en áliðnaður utan Evrópu greiðir engin slík gjöld. Með upptöku kolefnisgjalds til viðbótar gjaldtöku vegna ETS eru íslensk stjórnvöld að skerða verulega samkeppnishæfni áliðnaðar hér á landi,“ segir í tilkynningunni.

„Hugmyndir fjármálaráðherra fela því í sér tvísköttun á kolefnislosun áliðnaðar á Íslandi sem tíðkast hvergi annars staðar. Þær eru jafnframt skýrt brot á samkomulagi því sem gert var við stjórnvöld í desember 2009, auk þess sem þær brjóta í bága við ákvæði fjárfestingarsamninga.“

Samtökin segja að samkomulagið hafi jafnframt falið í sér innleiðingu tímabundins raforkuskatts og fyrirframgreiðslu tekjuskatts þessara fyrirtækja á tímabilinu 2010-2012 í ljósi erfiðrar stöðu ríkissjóðs.

„Þau áform sem nú hafa verið kynnt brjóta því einnig gegn ákvæðum um raforkuskatt, þar sem fyrirhugað er að festa hann í sessi. Í þessu samhengi má benda á að  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur í skattatillögum sínum til Fjármálaráðuneytisins varað stjórnvöld við að leggja nýjar og óvæntar álögur á orkufrekan iðnað.“

„Engin álver, hvorki í Evrópu né annars staðar í heiminum, greiða kolefnisgjald af því tagi sem áform eru uppi um að leggja á hér á landi. Fullyrðingar um að Ísland sé einhver skattaparadís, þar sem samsvarandi starfsemi sé „skattlögð alls staðar erlendis”, standast því ekki,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert