40% af veiðigjaldi til sveitarfélaga

Drög að nýju kvótafrumvarpi voru birt á vef sjávarútvegsráðuneytisins í …
Drög að nýju kvótafrumvarpi voru birt á vef sjávarútvegsráðuneytisins í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Drög að frumvarpi sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra birti í dag um stjórn fiskveiða felur í sér að 40% af veiðigjaldi hvers árs renni til sveitarfélags þar sem skip er skráð. Þá verður stofnaður nýr sjóður sem fær 10% af veiðigjaldi.

Samkvæmt kvótafrumvarpinu sem ráðherra lagði fram í vor átti 50% af veiðigjaldinu að renna í ríkissjóð, 30% til sveitarfélaga og 20% í sjóð sem stuðlar að nýsköpun, rannsókn og þróun í sjávarútvegi. Í nýja frumvarpinu er gerð tillaga um að 50% fari i ríkissjóð, 40% til sveitarfélaga og 10% fari í svokallaðan AVS-sjóðs, sem hafi það að markmiði að stuðla að rannsóknum, nýsköpun og þróun ásamt markaðsmálum í íslenskum sjávarútvegi.

Samhliða þessu frumvarpi er lögð til breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga þar sem lagt er til að veiðigjald verði einn af lögmæltum tekjustofnum sveitarfélaga.

Varanlegt framsal aflaheimilda er bundið takmörkunum er snúa fyrst og fremst að því að tryggja hagsmuni sjávarbyggðanna. Í frumvarpinu er lagt til að fari varanlegt framsal aflaheimilda úr byggðarlagi umfram 15% miðað við aflaheimildir í byggðarlagi fiskveiðiárið 2011/2012 geti ráðherra hafnað framsali eða nýtt forgangsrétt til að tryggja að aflaheimildirnar verði áfram á því svæði sem um er að ræða.

Framsal á krókaaflamarki og aflamarki verði takmarkað innan fiskveiðiársins og réttindi til framsals verði áunnin með veiðum. Kvótaþingi verði komið á laggirnar á nýjan leik og í því skyni er lagt til að stofnað verði kvótaþing Fiskistofu sem rekið verði sem sérstök deild innan Fiskistofu.

Nýtt frumvarp lagt fram

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert