Með sama sniði og fyrr

Barnakór Bústaðakirkju lætur til sín taka á aðventuhátíð sl. sunnudag.
Barnakór Bústaðakirkju lætur til sín taka á aðventuhátíð sl. sunnudag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Gísli Jónasson, sóknarprestur og prófastur, segir skýrt að heimsóknir skólabarna í Reykjavík í kirkjur borgarinnar á aðventunni geti verið með sama sniði og undanfarin ár eftir að sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur sendi bréf til skólastjórnenda í dag. „Það er búið að eyða þessari óvissu en það eru aðrir hlutir sem við erum ekki sáttir við,“ segir hann.

Gísli er sóknarprestur í Breiðholtskirkju og prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra.

Í Kastljósi RÚV í kvöld greindi Gísli frá því að Ragnar Þorsteinsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, hefði í dag sent skólastjórum í grunn- og leikskólum borgarinnar bréf vegna umræðu um heimsóknir skólabarna í kirkjur á aðventunni. Gísli segir að bréfið eyði óvissunni og að ljóst sé að heimsóknirnar geti verið með sama hætti og undanfarin ár.

Ekki krafin um að biðja bænir

„Ég má signa mig og fara með Faðir vorið í skólaheimsókn en ég má ekki krefja börnin um að þau taki undir með mér. Eins og ég hafi einhvern tíma gert það,“ segir Gísli. Prestar gætu t.d. sagt að nú gætu þau sem vildu farið með Faðir vorið. „Börn hafa líka mannréttindi og það er ekki mjög eðlilegt ef barn, eins og mörg dæmi eru um, kemur í skólaheimsókn í kirkjuna sína, þar sem það signir sig og biður bænir, ef það ætti að banna því að biðja bænir,“ segir hann.

Gísli segir að margir skólastjórnendur hafi verið óvissir um hvað reglur um samskipti leik- og grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar við trúar- og lífsskoðunarfélög fælu í sér. Þeir hefðu sumir jafnvel talið að það væri bannað að fara með nemendur í kirkju og að allt bænahald væri bannað í kirkjunni og jafnvel sálmasöngur einnig. Umræðan hafi farið á flug og stundum frekar miðað við upphaflegar tillögur mannréttindaráðs en ekki þær reglur sem borgarráð samþykkti.

Kórinn starfar ekki lengur

En þó að þessari deilu, þ.e. um skólaheimsóknir, sé lokið að mati Gísla, gerir hann enn alvarlegar athugasemdir við samskiptareglurnar. Gagnrýni hans snýst einkum um tvennt, annars vegar bann við að dreifa Nýja testamentinu og hins vegar við að trúar- og lífsskoðunarfélög fái að nota skólahúsnæði á skólatíma.

Gísli bendir á að bannið við samnýtingu skólahúsnæðis hafi m.a. leitt til þess að starf barnakórs Breiðholtskirkju, þ.e. fyrir yngstu börnin, hafi lagst af. Æfingar hefðu verið haldnar í frístundaheimili en eftir að bannað var að nota það húsnæði hefðu ekki verið forsendur fyrir kórastarfinu. Þarna hafði barnakórinn æft til fjölda ára. „Börn sem vildu taka þátt fóru á æfingu, að sjálfsögðu með leyfi foreldra, það var ekki verið að valta yfir einn eða neinn,“ segir hann.

Ekkert í vegi fyrir helgileikjum

Bréf Ragnars Þorsteinssonar sem hann sendi til skólastjórnenda í dag fylgir hér:

Á aðventunni hafa skapast margvíslegar hefðir í skólastarfi í Reykjavík. Vegna nýrra reglna Reykjavíkurborgar um samskipti leik- og grunnskóla og frístundaheimila við trúar- og lífsskoðunarfélög hafa vaknað ýmsar spurningar hjá skólastjórnendum um hvernig haga megi samstarfi skóla og kirkju í aðdraganda jólanna. Til að bregðast við þeirri óvissu vill skóla- og frístundasvið koma eftirfarandi á framfæri:

Samkvæmt ofangreindum reglum eru heimsóknir nemenda grunnskóla heimilar í kirkjur í skólatíma undir handleiðslu kennara. Heimilt er að leyfa nemendum að fylgjast með athöfnum og kynnast helgisiðum en ekki má gera kröfu um að nemendur taki þátt í bænum eða öðrum helgisiðum. Sama á við um börn á frístundaheimilum og í leikskólum borgarinnar. Í reglunum er sérstaklega tekið fram að sígildir söngvar, dansar, leikir og handíðir sem teljast hluti af gamalgrónum hátíðum og frídögum þjóðarinnar haldi sessi sínum í árstíðarbundnum skemmtunum og starfi frístundaheimila, leik- og grunnskóla og þar á meðal séu jólasálmar og helgileikir tengdir jólum. Skóla- og frístundasvið telur ekkert því til fyrirstöðu að helgileikir sem nemendur hafa fengið að setja upp í kirkjum í borginni verði áfram settir þar upp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert