Annar í gæsluvarðhald

Pítsur fluttar í hús embættis sérstaks saksóknara í kvöld.
Pítsur fluttar í hús embættis sérstaks saksóknara í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í kvöld á kröfu embættis sérstaks saksóknara um að annar fyrrum starfsmaður Glitnis banka sæti gæsluvarðhaldi í viku.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is er þetta Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá Glitni. Var hann leiddur út í lögreglubíl utan við hús héraðsdóms í kvöld.

Fyrr í dag var Lárus Welding, fyrrum forstjóri Glitnis, úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald að kröfu sérstaks saksóknara.

Þá hefur saksóknaraembættið krafist gæsluvarðhalds yfir þriðja manninum vegna rannsóknar á  því hvort lög hafi verið brotin í tengslum við lánveitingar og hlutabréfaviðskipti Glitnis í viðskiptum tengdum FL Group og Stími,  auk viðskipta með hlutabréf í Glitni sjálfum.

Fram kom í tilkynningu frá embætti sérstaks saksóknara í dag að eftirfarandi atriði væru til rannsóknar.

  1. Kaup eigin viðskipta Glitnis á hlutabréfum útgefnum af bankanum á verðbréfamarkaðinum. Einnig kaup bankans og ráðstöfun á hlutabréfum útgefnum af FL Group.
  2. Lánveitingar til ýmissa félaga vegna kaupa á hlutabréfum útgefnum af bankanum í lok árs 2007 og á árinu 2008. Upphaflegur höfuðstóll nefndra lánveitinga er talinn nema samtals tæpum 37 milljörðum króna.
  3. Viðskipti með framvirka samninga í hlutabréfum útgefnum af bankanum.
  4. Sölutrygging Glitnis á 15 milljarða hlutafjárútboði FL Group áramótin 2007 og 2008.

Yfirheyrslur hófust í morgun yfir sakborningum og vitnum í málunum en ráðgert er að yfirheyrslur haldi áfram næstu daga. Alls tóku um 60 starfsmenn embættisins þátt í aðgerðunum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert